Markaðssetning grunnskóla
Sérhæfing fámennra grunnskóla
og möguleikar á markaðssetningu náms
Ritgerð á námskeiðinu Markaðsetning fræðslutilboða fyrir fullorðna (MEN087F) í framhaldsdeild Menntavísindasviðs HÍ
Höf. Agla Snorradóttir Vegatungu Bláskógabyggð
Inngangur
Er hægt að gera nám í grunnskóla markaðshæft? Hvað þarf til? Og hvers vegna ætti að þurfa að markaðssetja grunnskóla? Hvernig er best fyrir grunnskóla að markaðssetja sig? Þessar og álíka spurningar urðu til þegar að ég sótti námskeið um markaðssetningu fræðslu í framhaldsdeild á Menntavísindasviði HÍ.
Innblástur við lestur í veftímaritinu Netlu; grein Valgerðar Gunnarssdóttir sem heitir Fámennir framhaldsskólar – stað þeirra og framtíðarhorfur varð til þess að ég fór að huga að grunnskólanum og stöðu hans í markaðssetningunni. (sjá;Valgerður Gunnarsdóttir,2002)
Í greininni ræðir Valgerður um fámenna framhaldsskóla og möguleika þeirra til markaðssetningar. Út frá hennar pælingum hugsaði ég hvort að eitthvað af þessu og kannski eitthvað til viðbótar gæti átt við grunnskóla, einkum fámennra skóla úti á landi. Einnig hvort og hvernig skólar geta kynnt sig í mismunandi miðlum og þá á sem ódýrastann hátt.
Oft eru fámennu grunnskólarnir úti á landi lífæðar samfélagsins og geta lagt margt gott til í samfélaginu. Þeir geta t.d. verið miðpunkturinn í menningarlífi staðarins og geta gegnt þar stóru hlutverki. Þess vegna getur það verið mikilvægt fyrir grunnskólann að kynna sig og fyrir hvað hann stendur opinberlega og gera upplýsingarnar aðgengilegar fyrir alla, bæði nemendur, foreldra og almenning.
Til þess að grunnskóli sé öflugur þarf hann að marka sér stefnu sem er sérstök fyrir hann, koma stefnunni á framfæri og fá endurgjöf á hana. Endurgjöfin gæti m.a. falið í sér fjölgun nemenda í skólann. Ef það gerist, þýðir það væntanlega fólksfjölgun í samfélaginu og kannski meiri stöðuleika samfélagsins Þannig getur grunnskólinn orðið einn af meginstoðum samfélagsins.
Markaðssetning náms
Þegar hugsað er um nám í grunnskóla er hugsa flestir einungis um það að framfylgja grunnskólalögum og aðalnámsskrá grunnskóla. Í þau rúm 20 ár sem ég hef starfað sem grunnskólakennari man ég ekki eftir því að rætt hafi verið hvort að það þyrfti að markaðssetja eða markaðsfæra grunnskóla, hugsunin er sú að það eiga allir nemendur 6-15 ára að vera í skóla. En ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort að sveitarfélög þyrftu að huga betur að því að láta umheiminn vita af sér, bæði til þess að fá til sín hæfari kennara, kennara sem vilja vinna í spennandi umhverfi og fá foreldra í skólahverfið sem hafa áhuga á námi barna sinna og vilja taka þátt í því sem er um að vera í grunnskólum.
Undanfarið hafa sumir grunnskólar farið út í það að sérhæfa sig og gefið sig út fyrir ákveðnar skólastefnur. Má þar nefna skóla eins og Ingunnarskóla en hann er t.d. ,,hannaður með ákveðna skólastefnu í huga. Þetta hönnunarferli kallast Design Down Process eða frá því almenna til þess sérstæða. Kallaðir voru til einstaklingar úr ýmsum hópum samfélagsins til að ræða væntanlega starfsemi skólans og hvernig bygging gæti best þjónað slíkri starfsemi.” (sjá; Ingunnarskóli,2008). Þá er einnig í Norðlingaskóla „lögð áhersla á að nota náttúruna markvisst í námi nemenda. Verið er að safna saman efni til að auðvelda nemendum og kennurum að tileinka sér þessi vinnubrögð og er þessi síða hér tilraun til að halda utan um það efni sem finnst á vefnum og unnið verður að hér í skólanum”. (sjá;Norðlingaskóli,2008)
Einhverra hluta vegna hafa þessir skólar verið duglegir að halda því á lofti fyrir hvað þeir standa. Ég hef upplifað það sem einhvers konar ,,vírusmarkaðssetnigu”. (Epstein,2006:36 og viralmarketing.com) Vírusmarkaðssetningin er hugtak og aðferð sem gengur út á það að einn ,,segir” öðrum og svo áfram, þannig berst orðstýr þeirra út. Kannski er til íslenskt orð yfir slíka markaðssetningu en „frásagnir” Gróu á Leiti fóru manna á meðal og er vírumarkaðssetningin kannski ekki ólíkt form og Gróu á Leiti hugmyndin – að fara á milli bæja og segja frá.
En vírusmarkaðsaðferðin hefur verið notuð með verkfærum sem tölvuheimurinn býður upp á. Þeir sem vilja koma sínum málefnum fljótt á framfæri og jafnvel án mikils kostnaðar hafa nýtt sér þessi tækifæri. Möguleikarnir í sendinu tölvupósta, skráningu á MySpace og Facebook eru gríðarlegir. Einnig geta blogg og Youtube komið að gagni. Í þessum vefsamfélögum eru þúsundir manna á hverjum degi. Þannig væri hægt að ná sambandi við „umheiminn” á skömmum tíma.
Í skýrslu sem menntavísindasvið Reykjavíkurborgar gaf út 2006 eru foreldrar í 94% tilfella ánægðir með skóla barnsins síns og má áætla út frá því að þeir taki þátt í því að segja örðrum frá hvað þeir eru ánægðir með. (sjá Norðlingaskóli,2008)
En hér hefur verið talað um skóla í Reykjavík en hvað með skóla á landsbyggðinni? Önnur sveitarfélög þyrftu að vinna slíkar kannanir og birta almenningi. Það auðveldra þeim sem að hafa áhuga á sveitarfélaginu og grunnskólanum þar að sjá hvernig skólinn starfar og hverjir styrkleikar skólans eru. Þetta er einnig gott fyrir þá sem tilheyra skólaumhverfinu að geta bent á hvað er vel gert og hvar er hægt að sjá það.
Fámennir skólar
Til eru samtök fámennra skóla og ná yfir öll skólastigin. Þettta eru samtök skólaáhugafólks sem láta sig varða fámenna skóla. Þau hafa verið starfandi frá 1989.
Á vef samtakanna er sagt frá því að skilgreiningar eru ekki algildar á þvi hvað er fámennur skóli. Að mati samtakanna er fámennur grunnskóli, skóli sem kennir í blönduðum aldurshópum og/eða skóli með 1 til um 120 nemendur. (sjá á vef Samtaka fámennra skóla, 2008) Þessi skilgreining hefur ekki breyst síðan hún var sett við stofnun samtakanna.
Kostir fámennra skóla
Í grein Valgerðar Gunnarsdóttur telur hún upp nokkra kosti við fámenna skóla en þeir eru:
· Persónulegri þjónusta við hvern einstakan nemanda
· Auðveldara að fylgjast með námsgengi einstakra nemenda
· Nemendur „týnast“ ekki – vinir styðja
· Þroskar félagsfærni nemenda
Þegar litið er á kosti þess að vera í fámennum skóla má segja að það séu einkum fjórir þættir sem líta megi á sem grunnviðfangsefni þ.e. nemendurnir, starfsfólkið og fjárhagsreksturinn og að lokum faglegt starf. Kosturinn fyrir nemendur er að þeir þekkja alla í skólanum með nafni og samskipti verða persónulegri. Nemendurnir eru í fámennari hópum og ættu að geta fengið gott aðhald og þjónustu. Foreldrar nemenda þekkja starfsumhverfi barnsins vel og samskipti við skólann eru auðveldari. Kosturinn fyrir starfsfólkið er að boðleiðir geta verið einfaldar innanhúss og ef vel tekst til samstillt starfsfólk. Fjárhagsreksturinn getur talist kostur ef skipulag á rekstrinum er gott en margt í grunnkostnaði er fastakostnaður sama hvaða stærð skólans er. Hvað faglega starfið varðar þá eru kostir þess að vera með fámennaskóla að nemendahópar verða sjaldan óyfirstíganlega stórir. Hér hefur aðeins verið tiplað á örfáum kostum þess að vera með/í fámennum skóla.
Gallar fámennra skóla
Ekki er einungis nóg að líta til kostanna, það þarf að skoða hvort einhverjir gallar eru á því að reka fámenna skóla. Í áður nefndri grein Valgerðar telur hún gallana á fámennum skólum vera:
· Námsframboð ekki eins fjölbreytt
· Fjárhagur þrengri, vegna þess að skólar fá fjármagn í samræmi við fjölda nemenda sem gengur til prófs
· Allir vita allt um alla
Þegar skóli er fámennur þarf oft að kenna árgöngum eða hópum saman sem eiga fátt sameiginlegt; einkum þegar horft er til námsskrár. Námsskrár grunnskóla byggja oft á aldri nemenda en mikill aldursmunur í árum í nemendahóp getur verið vandamál. Þroskabilið er þá svo mikið að sama námsefni hentar ekki öllum. Í slíkum tilfellum getur einstaklingsmiðað nám verið góður kostur. Rekstarform fámennraskóla er erfiðara vegna þess að ýmis grunnkostnaður er samur sama hver stærðin er. Hvað varðar félagslega þætti hjá mannfólkinu er það að í fámennu samfélagi vill það oft verða þannig að allir halda að þeir viti allt um alla. Menn eru settir á hina ýmsu bása og eiga þaðan illa afturkvæmt. Það er erfitt að breyta til vegna þessa. Þetta á við bæði um nemendur,starfsfólk og heimilin.
Fjármagn skóla og markaðssetning
Allar sveitastjórnir setja skólum fjárhagsramma sem stjórnendur þurfa að fara eftir. Fjárhagsramminn, fjárhagsáætlunin, stendur saman af kostnaði við lögboðnar skyldur sveitarfélagsins annars vegar og hins vegar þær upphæðir sem sveitarstjórn leggur aukalega til skólans vegna sérstakra verkefna eða séráherslna í skólastarfinu. Vilji, markmið og framtíðarsýn sveitastjórna ræður miklu um það hvers konar grunnskóli eða grunnskólar eru reknir í sveitarfélaginu.
Ef litið er nánar á það hvort skólar sem teljast til fámennra skóla eða eru þar við þröskuldinn hafa möguleika innan fjárhagsrammans að bjóða upp á sérstök námstilboð og þá hvernig og í hvaða formi.
En það þarf ekki allt að kosta mikla peninga, skólastjórnendur þurfa að „sjá” og kunna að nýta hæfileikaríkt starfsfólk, virkja starfsfólkið með sér. Áhugi starfsfólks, góðar hugmyndir og útsjónasemi er oft vanmentinn þáttur í skólastarfi.
Sveitarfélag þarf að marka sér stefnu um skólamál á margan hátt, hvað vill það að nemendafjöldinn í skólanum verði mikill miðað við aðstæður í dag, dugar húsnæðið sem til er?, hentar það til nútímakennsluhátta? og slíkt. Þegar að þetta er komið þarf að huga að því hvort ekki væri skynsamlegt að fara út í einhvers konar markaðssetningu á skólanum, markaðssetningu sem lýtur að því að vekja athygli á því sem vel er gert og koma stefnumálum og gildum skólans á framfæri. Kyrrstaða (e. status qou) er erfið ef þarf að ná til aðila. Markaðsfræðin er um það að breyta hegðun. Virk markaðsfærsla er mikið meira en auglýsingar. Það er rétt mat á valkosti á réttum stað, á rétum tíma og á réttu verði. (Kotler, 2007:52) Það þarf að skoða hvað er mikilvægt í skipulagningu markaðssetningar en ef markaðsetningin er góð breytir hún hegðun þeirra sem henni er beint að. Það eru til tvær leiðir til þess önnur er sú heimspekilega (e. philosophical) og hin er til búin til notkunar (e. operational). Fyrri leiðin beinist að innri (e. centrality) markaðnum og hugsar um starfsemi skólans. Hin leiðin hefur meiri formgerð (e. structural) þ.e.a.s segir hvernig markaðssetning er skipulögð og hvernig hún er gerð. (Kotler,2007:63)
Þegar að markaðsfræðingurinn og hans fólk hefur skilgreint viðeigandi markaðsfræðilegt hugarfar (e. marketing mindset) í skólum verða þeir að ákveða meginlínurnar sem skólarnir vilja fara í markaðssetningunni. Þá er að greina (e. analyze) styrkleika og veikleika skólans. Það þarf að skoða verkefnin (e. mission), takmarkið (e. objective) og markmiðin (e. goals). Verkefnin lúta að því að skólinn skilgreini tilgang sinn og hvað hann ætlar að framkvæma. Takmarkið getur verið mjög misjafnt allt frá því hvað á að leggja áherslu á eins og að hafa félagsleg áhrif, markaðshlutdeild, aukningu eða orðstír skólanna. (Kotler,2007:67-70)
Markaðssetnig fámennra skóla
Skólinn þarf að skapa sér ákveðna sérstöðu, það er ekki nóg að vera fámennur grunnskóli. Hann þarf að hafa eitthvað meira til brunns að bera.
Námsskráin sem gefin var út 2007 gefur skólum sveigjanleika til þess að búa til eigin skólanámsskrá þar sem að hægt er að samþætta námsgreinar og allir nemendur þurfa ekki að fara í gegnum sama námsefni. Þessi möguleik aðalnámskrárinnnar gefur skólum/sveitarfélögum tækifæri til þess að hanna og klæðskerasníða námsefni fyrir t.d. sveitarfélag. Í Aðalnámskránni segir að: ,,Aðalnámskrá grunnskóla skilgreinir og lýsir sameiginlegum námsmarkmiðum sem grunnskólum ber að stefna að og segir til um þann lágmarkstíma sem skólum ber að bjóða nemendum í einstökum námsgreinum og námssviðum. Sveitarfélög og skólar geta ráðstafað frjálst hluta þess lágmarkstíma sem nemendur eiga rétt á og geta auk þess boðið lengri skólatíma en lögboðið lágmark segir til um. Í 8., 9. og 10. bekk er þetta svigrúm allt að þriðjungi af þeim tíma sem námskráin tiltekur. Gert er ráð fyrir að í þessum bekkjum fái nemendur tækifæri til að velja milli námsgreina og námssviða”. (Aðalnámsskrá grunnskóla,2007:5) ... ,,Aukið valfrelsi þýðir að nemendur geta lokið grunnskóla með mismunandi áherslum”. (Aðalnámsskrá grunnskóla,2007:7) ... ,,Menntakerfið á að vera sveigjanlegt til að mæta nýjungum og breyttum kröfum. Höfuðskylda þess er þó að veita nemendum góða, alhliða menntun. Almenn menntun er besta veganesti sérhvers einstaklings”. ... ,,Almenn menntun á að efla gagnrýna, sjálfstæða hugsun hjá einstaklingum og hæfileika til þess að bregðast við nýjum aðstæðum. Í síbreytilegu umhverfi samtímans reynir á hæfni til þess að bregðast við nýjum aðstæðum, takast á við og tileinka sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Í grunnskólum ber að efla með nemendum sjálfstraust og heilbrigðan metnað. Nemendur þurfa að fá tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar í rituðu og mæltu máli í námi. Þeir þurfa að geta látið skoðanir sínar í ljós, vera óhræddir við breytingar og geta borið ábyrgð á gerðum sínum. (Aðalnámsskrá grunnskóla,2007:8)
Ef stjórnendur og starfsfólk grunnskólans nota þessa kosti aðalnámskrár geta þeir „hannað” starfsemi skólans að sérstöðu síns sveitarfélags. Notað allt það góða sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Sem dæmi um þetta má nefna skóla úti á landi og í sveitarfélagi þar sem byggt er á landbúnaði, garðyrkju og ferðamennsku. Þar er einnig stutt í náttúruna og önnur gæði landsins. Slíkur skóli gæti markað sér stefnu sem náttúruskóli með áherslu á útikennslu og hestamennsku svo eitthvað sé nefnt. Til þess að allir sem eiga heima í sveitarfélaginu séu meðvitaðir um það sem er að gerast í skólanum og þeir sem hugsanlega vilja flytja í sveitarfélagið þurfa að hafa aðgengi að slíkum upplýsingum um skólann. Ef skólinn er með skýr markmið og fer eftir þeim, einnig ef nemendur, foreldrar og starfsfólk er ánægt, spyrst slíkt út. Skólinn getur verið sú stofnun sem laðar fólk að og vill búa í sveitarfélaginu. Þeir sem starfa við skólann þurfa þá að hafa skýra sýn á það sem skólinn hefur upp á að bjóða. Þeir þurfa einnig að hafa trú á að „varan” – hér námið - sem þeir eru að bjóða uppá sé eftirsóknarverð og sérstakt. Markaðssetningin þarf þá að vera þannig að sá sem á að njóta þjónustunnar, nemandinn/foreldrarnir, „viðskiptavinurinn” viti af henni og hvernig hann geti nálgast hana.
Það er afar mikilvægt að það verði ekki stöðnun í því sem verið er að gera, endurskoðun og endurmat; gæðaeftirlit verði virkt á því sem verið er að gera. Skólinn verður að standa undir þeim væntingum sem hann gerir en ekki lifa á því sem var einu sinni gert, en er það ekki lengur, vegna þess að aðstæður hafi breyst.
Ímynd skólans
Þegar maður heyrir orðið grunnskóli kemur strax upp í huga mannsins ákveðin ímynd. Allir, a.m.k. langflestir Íslendingar, hafa gengið í grunnskóla og vita því hvað það fyrirbæri er. En enginn grunnskóli er eins, svo myndin sem einstaklingarnir hafa eru ekki allar eins. Þá má einnig velta því upp að skólarnir hafa breyst í tímanna rás hafa allir fylgst með því sem er að gerast í grunnskólum í dag og vita þeir fyrir hvað þeir standa. Hugsanlega ekki. Grunnskólar þurfa því að koma sér upp eigin ímynd og segja frá fyrir hvað þeir standa.
Segja má að ein verðmætasta eign fyrirtækis- hér skóla - er ímynd þess og ásjóna. Það tekur áratugi að byggja upp sterka ímynd en það getur tekið örskamma stund að rústa henni. Sterk ímynd skapar góðvild og viðskiptatryggð. Ímynd er heildarálit einstaklings eða hóps á einhverju fyrirbæri: fyrirtæki, vöru, stað eða persónu. Hver einstaklingur, neytandi, hefur skoðun eða tilfinningu gagnvart vöru. Þetta álit er ekki alltaf rétt eða er ekki eins og stjórnendur vilja hafa það, en hefur samt sem áður mikil áhrif á eftirspurn eftir vöru þess og þjónustu. Þess vegna er vert að skoða ímynd skóla og það er m.a. hægt að gera með markaðsrannsóknum. Þær verða að vera vel undirbúnar svo kostnaður verði ekki of mikill. (Bogi Þór Siguroddsson,2000:250). Skólarnir þurfa þá einnig að móta ímyndarstefnu. En það er grundvallarforsenda fyrir árangri í ímyndaruppbyggingu. Þegar hlutverk skólans hefur verið skilgreint þarf að gera nákvæma markmiðsáætlun um það hvernig hægt er að brúa það bil sem er milli þeirra ímyndar sem skólarnirr hafa í dag og þeirra ímyndar sem skólinn vill hafa. Úrræði til ímyndauppbyggingar eru óendanlega mörg. (Bogi Þór Siguroddson, 2000:249-252). Þar þarf að skoða heildarmyndina og finna út hvað hentar skólanum í því umhverfi sem hann starfar í.
Öflun markaðsupplýsinga
Áður en farið er út í að gera markaðsáætlun, þ.e.a.s koma skólanum á framfæri. Þarf hann að þekkja innviði sína og hugsanlega þátttakendur. (Bogi Þór Siguroddson,2000:99-101).
Þar sem markaðssetning skóla hefur sennilega ekki verið ofarlega á borðum stjórnenda skóla má ætla að þeir þekki illa til öflunar markaðsupplýsinga. Eitt af því sem má leiða líkum að er að þeir halda að rannsóknir séu of dýrar, þeir halda að það sé að eins fyrir meiriháttar ákvarðanir. (Kotler,2007:44) Stjórnendur skóla, skólastjórar, þurfa að varast að leggja út í kostnaðarsamar og umfangsmiklar markaðsrannsóknir áður en þeir hafa að fullu gert sér ljóst til hvers þeir ætla að nota upplýsingarnar sem koma út úr rannsóknunum. (Bogi Þór Siguroddson, 2000:239) Þá er að greina (e. analyze) styrkleika og veikleika skólanna. Það þarf að skoða verkefnin (e. mission), takmarkið (e. objective) og markmiðin (e. goals). Verkefnin lúta að því að skólinn skilgreini tilgang sinn og hvað þau ætla að framkvæma. Takmarkið getur verið mjög misjafnt allt frá því hvað á að leggja áherslu á eins og t.d. að hafa félagsleg áhrif, efla markaðshlutdeild, aukningu nemenda eða auka orðstír skólans. (Kotler,2008:67-70) Hægt að gera innri skilgreiningu t.d. með SVÓT greiningu. Hún gengur út á það að kanna styrkleika (S), veikleika (V), ógnanir (Ó) og tækifæri (T) hvers skóla. Styrkur er eitthvað sem skólinn getur gert betur en samkeppnisaðilinn – hér annar grunnskóli og hann getur ekki tekið upp með stuttum fyrirvara. Veikleiki er eitthvað sem samkeppnisaðilinn gerir betur en hinir skólarnir og skólinn getur ekki tekið upp með stuttum fyrirvara. Ógnanir er það sem skólar þurfa að óttast og tækifærin er að sjá þá möguleika sem innra starf gefur. (Kotler,2007:74)
Innan SVÓT-greiningarinnar þarf að skoða starfsemina með þeim augum hvort skólinn kemur til skila því sem hann vill, er þjónustan öflug?, af háum gæðaflokki?, er hún sérstök fyrir heimamenn? Einnig felur slíkt módel í sér hvernig skólinn nær til neytendanna þ.e. nemenda og foreldra. Þá skoðar hann getuna til að kynna það sem gert er. Hvaða farveg skólinn vill fara í. Hvaða fjárhag hann hefur til verksins. Þá þarf einnig að gera ráð fyrir rannsóknum og þróun í skólastarfinu. Inn í ferlinu þarf að vera hvaða leiðir eru færar í markaðsfærslunni - markaðssetningunni. Að lokum er kannski það mikilvægasta eftir en það er að framkvæma af framsýni það sem hefur verið skipulagt og spá í breytingar. (Epstein,2006:10-11)
Það þarf einnig að huga að ytri áhrifum, þar þarf að skoða tækifærin sem eru möguleg. Ytri aðstæður hafa einkum þrjá þætti, aðstæður almennings, samkeppnisaðstæður og fjær umhverfi. (e.macroenvironment) (Kotler,2007:74-75)
En hvers konar markaðsrannsóknir eiga grunnskóla að fara í? Þeir þurfa rannsóknir sem kanna hvort væntingar neytandans; hér foreldranna og nemenda, standast það sem skólinn segist standa fyrir. Það þarf að kanna alla þætti skólastarfsins.
Fryrir litlar stofnanir eins og fámenna grunnskóla hefur Kotler sett upp 12 þrepa kerfi BMR (e. backward marketing research) til að spara tíma og vinnu við að skipuleggja rannsókn. Þar er farið í skref fyrir skref hvernig á að fá virka rannsókn.
Skrefin sem Kotler nefnir eru:
Ákveða hvaða lykilákvarðanir er teknar til þess að nota rannsóknar niðurstöður
Ákveða hvaða upplýsingar munu hjálpa stjórnendum til að taka bestu ákvarðanirnar
Undirbúa frumskýrslu og spyrja stjórnendur að því hvað það er sem hjálpar þeim að taka ákvarðanir
Ákveða greininguna sem er nauðsynlegt að fylla inn í skýrsluna
Ákveða hvaða spurninga verður að spyrja til að verða við kröfum greiningar gagnasöfnunar
Fá fullvissu um hvort það er þörf fyrir spurningar sem hafa verið spurðar áður
Búa til dæmi
Útfæra hönnun rannsóknar
Skilgreina gögnin
Skrifa skýrslu
Aðstoðar framkvæmdastjóri útfærir niðurstöðurnar
Meta rannsóknaraðferðir og rannsóknarframlag
(Kotler,2008:125)
Lokaskrefið í markaðsrannsóknum er einna mikilvægast, því að nýting upplýsinganna er það sem skiptir máli. Það þarf að vera ofarlega í hug allan tímann meðan á rannsóknarferlinu stendur. Skólar sem eru tilbúin til að leggja í þann kostnað sem fylgir markaðsrannsóknum fá hann oftast margfalt „greiddan” til baka. Þau eru líklegri til þess að fá fleiri þátttakendur í það sem þau eru að vinna í og finna sinn markhóp, ef hann er ekki þegar skilgreindur, öðlast betri skilning á þörfum hans og starf skólanna verður markvissari (Bogi Þór Siguroddson,2000:246-247)
Rannsóknaraðferðir
Ýmsar rannsóknaraðferðum er hægt að beita við öflun markaðsupplýsinga, annars vegar eigindlegum (e. qualitative) og hins vegar megindlegum (e. quantitative) rannsóknum. Hvor þáttur um sig skiptist síðan í marga undirflokka og fer það eftir eðli rannsóknarinnar hvað er notað hverju sinni.
Eigindlegar rannsóknir snúa einkum að viðtölum og fyrirbærið (hér er það þátttakandinn í verkefninu) eru rannsökuð eins og það kemur fyrir í umhverfi sínu, það er einnig hægt að túlka og skynja fyrirbæri, munnlegar lýsingar eru skrifaðar og niðurstöður eru endurtakanlegar, villur og skekkjur er hægt að leiðrétta, farið er varlega í að alhæfa.
Megindlegar rannsóknir safna gögnum sem eru í talnaformi, kenningar og tilgátur eru prófaðar á hóp, meginmarkmið er að uppgötva orsakatengsl þ.e. lögmál sem eru almenn. Með þessari aðferð er hægt að prófa marga í einu og á stuttum tíma.
Hvaða rannsóknaraðferðir eru notaðar fer eftir því hver tilgangurinn er og hvaða markmiði á að ná með rannsókninni. Það sem þarf að hafa í huga í lokin er að fylgja eftir (e. follow up) því sem verið er að skoða, nota og nýta.(Gleeck,2001:142-144)
Þátttakendamiðun
Þegar farið er í markaðsrannsóknir og markaðsfærslu þarf að miða rannsóknina við þátttakandann, hér eru það þá foreldrar og nemendur aðalviðfangefnið. Starfsfólkið má þó ekki gleymast í þessari umfjöllum, það þarf að skoða málið í heild sinni. Hvert á þá að beina markaðssetningu/markaðsfærslu?
· Til væntanlegra nemenda
· Til foreldra/forráðamanna
· Til næsta skólastigs á undan – einkum foreldra leikskólabarna
Það að beina markaðssetningu til ungra barna er mjög vandasamt og spurning hvort það er réttlætanlegt, en það má velta því fyrir sér hvort að það er markaðssetning að bjóða væntanlegum nemendum í skólann til að sjá og kynnast skólanum sem þeir eru að fara í. Þetta er aðferð sem margir skólar viðhafa og er gert undir t.d. merkjum skólaaðlögunar.Þegar litið er síðan til foreldranna lítur málið öðrum lögmálum, því þeir ákveða í hvað skóla barnið fer og þangað þyrfti að beina markaðssetningunni. Einnig þyrfti að ná til foreldra leikskólabarna og fá þá til að hugsa sitt mál varðandi skólagöngu barna sinna og leiða þeim fyrir sjónir hvað skólinn hefur upp á að bjóða og fyrir hvað hann er sérstakur.Ekki má gleyma starfsfólki skólanna sjálfra en þeir eru boðberar skólans út á við, ánægðir starfsmenn geta verið ein besta auglýsingin fyrir stofnunina. Á þeim mikilvæga þætti þurfa stjórnendur og starfsmenn að átta sig á.
Staða stofnunnar
Til þess að skóli átti sig á því hvernig hann stendur gagnvart markhópum þarf hann að leitast við að kynna markaðsfærsluna inni í stofnunninni sjálfri og muna eftirfarandi:
Það þarf að styrkja það sem skólinn er að gera í markaðssetningunni. Markaðssetningin er frekar samþykkt ef allir innan skólans tileinka sér sama ferlið, frekar en að hver fer sínar eigin leiðir
Allur þrýstingur á skólann þarf að vera þekktur. T.d. þrýstingur frá stjórnvöldum og slíkum aðilum.
Það þarf að gera ráð fyrir takmörkuðum skilningi starfsfólks skólans á markaðssetningunni
Yfirfærslan frá markaðssetningu viðskiptaumhverfisins, bæði hvað varðar hugmyndir og tæki, ætti ekki að taka úr samhengi og flytja beint yfir á skóla
Þeir sem stjórna markaðssetningu í skólum eru oft í varnarstöðu varðandi þekkingarleysi þeirra vegna þess að þeir koma ekki úr viðskiptaumhverfi
Það ætti að fara varlega í vali á framkvæmd markaðssetningu, vegna þess að það ætti að:
- reikna framkvæmdina út ítarlega
- ljúka við hana innan ákveðins tímaramma
- takmarka hlutina við mögulegar bjargir
- vera hvorki í jaðri né miðju stofnunarinnar
- vera lykillinn að augljósum árangri innan skólans
Í lokagreiningunni á því að fá markaðssetninguna samþykkta innan skólans þarf frekar að beita „pólitískri” umfjöllun, frekar en að sannfæra alla á markaðfræðilegum grunni
Gera þarf ráð fyrir bakslagi og málamiðlarnir þurfa að eiga sér stað í skólanum (Kotler,2008:55)
Þegar að allir þessir þættir eru skoðaðir sem Kotler nefnir má segja að vinnan innan stofnunarinnar sjálfrar sé eitt af lykilatriðum ef skóli ætlar að fara út í markaðssetningu á sjálfum sér. Stofnunin og starfsmenn hennar verða að vita hvað þeir eru að gera, vita hvert þeir stefna og framfylgja því. Það þarf að leggja fram eitthvað því til staðfestingar t.d. skýrslur og niðurstöður kannanna um skólastarfið.
Framkvæmd markaðssetngarinnar
Þegar hugað er að því hvernig á að framkvæma markaðssetninguna, þarf að huga að öllum þáttum hennar. Ein leið til að framkvæma hana er að skipta markaðshópnum niður í samstæðahópa til þess að geta betur náð markmiðum markaðsáætlunarinnar, en slík skipti kallast markaðshlutun. (Bogi,2000:65)
Það verður stöðugt erfiðara að miða markaðssetningu við allan markaðinn. Það sem veldur því er að það er mikið framboð af vörum og þjónustu sökum vaxandi samkeppni og neytandinn er kröfuharðari. Ef foreldrar eru að leita að skólaumhverfi fyrir börnin sín má ætla að þeir séu með ákveðnar kröfur í farteskinu þegar þeir fara að skoða skóla. Sýn foreldra er mismunandi og því þarf skólinn að huga að hvers konar markhópi skólinn er að leita að.
Skipting í markhópa getur verið með ýmsum hætti:
Landfræðileg – hvar er markhópurinn?
Lýðfræðileg – hverjir eru í markhópum?
Einstaklingsleg – hvaða stétt, lífstíll og persónuleiki er einstaklingurinn?
Eftir kaupvenjum – hvaða tilefni er? Hagur af þjónustunni og nýting þjónustunnar
Í fram haldi af þessu þarf að skoða hvaða möguleika hefur skóli á að markaðsmiða vöru sína eða þjónustu?
Bogi bendir á 5 leiðir í bók sinni:
Sama markaðsmiðun: Þjónusta eða vara nær til allra, allir hafa aðgang
Aðgreind markaðsmiðun: Sama þjónusta eða vara er sett í mismunandi búning eftir því til hverra á að ná
Sérhæfð markaðsmiðun; Þjónusta eða vara nær einungis til ákveðins hóps og þá er reynt að ná til allra í þeim hópi
Markaðshorn: Þjónusta og vara er sérhæfð og er án mikillar samkeppni t.d. námskeið í matreiðslu.
Klæðskerasniðnar lausnir: Þjónusta og vara er búin til fyrir ákveðna stofnun eða hóp.(Bogi Þór Siguroddson,2000:65-82)
Hvaða leið er valin til að fara í markaðssetningu, fer sjálfsagt eftir því hvað það er sem skólinn vill ná fram. Markmiðin sem hann setur sér eru í forgrunni. Skipulagið þarf að vera skýrt og meðvitað, hvar á að leita fanga, því markaðurinn er stór og oft kröfuharður. Landfræðileg og lýðfræðileg skipting er eitt af því sem skólar þurfa að vera meðvitaðir um. Útfrá þeim viðmiðunum og markmiðum sem skólinn setur sér velur hann leiðina sem stofnunin vill fara.
Kynningarmál.
Hlutverk kynningarstarfs er að miðla upplýsingum milli stofnunnar og þess sem þiggur þjónustuna, neytendum. Það er ekki spurning hvort eigi að kynna þjónustu stofnunnar heldur hvernig eigi að gera það og hve miklu eigi að verja til þess. Einnig þarf að huga að markmiðum kynningarstarfsins en það ætti að vera að koma áleiðis upplýsingum sem kalla á einhverskonar viðbrögð hjá neytendum. Góður undirbúningur er forsenda þess að og skipulagning er forsenda þess að kynningarstarf heppnist vel. Gott er að nýta sér ramma boðmótunaráætlunarinnar en hún gengur út á að:
Skilgreina markhóp
Hafa markmið skilaboða skýr
Hanna skilaboðin
Greina í persónuleg og ópersónuleg skilaboð
Gera fjárhagsáætlun
Nýta samval kynningarráða
Meta árangurinn í lokin
Ef það þessari áætlun er fylgt eftir má ætla að vinnubrögðin og allt ferlið heppnist og að árangurinn verði skólanum til hagsbóta. En það þarf að huga að því að kynningaráætlun er langtímamarkmið og ætti að gera a.m.k. eitt ár fram í tímann.(Bogi Þór Siguroddson,2000,183-185)Sá sem heldur utan um samskipti í stofnun ætti að gera ráð fyrir að markhópurinn mótttaki skipaboðin í fyrstu umferð. Ef skilaboðin misheppast þarf að leita að rót vandans og athuga hvort hvort þau voru nógu skýr, hvort að líkamstjáning sem þeim fylgdi var ekki við hæfi eða hvort rangar upplýsingar höfðu verið gefnar áður en skilaboðin voru send.(Kotler,2008;275)
Ein kenningin um það að vera sýnilegur segir eftirfarandi:
Vertu skráður á réttan hátt, hvað stendur þú fyrir?
Passaðu að skráningin tilheyri réttum stað, námskeiðin séu rétt skilgreind
Vertu sýnilegur með því að passa að þú komist í fyrstu línurnar t.d. á gulu síðunum
Vertu fyrstur í auglýsingalínum, borgaðu meira fyrir auglýsinguna ef þess þarf, fyrstu þrír fá athygli, ekki þeir sem koma á eftir
Vertu tiltækur, ekki hafa símakerfið þannig að sá sem hringir þurfi að velja úr meira en þremur atriðum til að ná sambandi við þig
Passaðu að fá símanúmer, netfang og lén sem auðvelt er að muna
Vertu áreiðanlegur með því að breyta ekki um símanúmer, netfang og lén þó svo að stofnunin flytji eða breyti einhverju öðru (Epstein, 2006: 70-71)
Hér komum við enn og aftur að því hvað það er mikilvægt fyrir stofnanir að vera með skýr markmið og skýra stefnu, ennfremur að vera með markvissa undirbúningsvinnu. Það auðveldar alla vinnu eins og markaðsáætlun í framhaldinu.
Markhópar
Eitt af því sem þarf að huga að þegar farið er í kynningarátak er til hverra á að höfða? Er átakið almennt eða nær það til sértæks hóps? Markhópur er hópurinn sem ná á til þegar farið er af stað með átak. Í litlum skóla þar sem foreldrahópurinn er lítill og allir þekkja alla og halda jafnframt því að þeir viti allt um alla, er jafn nauðsynlegt fyrir skóla að halda uppi öflugu kynningarstarfi fyrir foreldra eins og í stóru skólunum og stóru skólahverfunumum í stærri bæjum. Í litlu samfélagið flýgur fiskisagan oft hratt og misskilningur á misskilning ofan leiðir stundum til rangfærslana. Því þurfa litlir skólar alveg eins að kynna sig fyrir nærumhverfinu eins og hinir stærri.
En þegar að átakið á að ná til stærri hóps og markmiðið að láta vita hvað það er gott það sem verið er að gera þarf að huga að því við hverja er verið að tala og vinna markhópinn út frá því. Á að „kynna” skólann til þess að fá fleiri nemendur eða á að „kynna” til að fá betri kennara eða á að láta samfélagið vita af því sem skólinn er að gera nýtt eða sérstakt? Þetta eru þættir sem þarf að hugsa út í þegar að markhópurinn og aðferðin fyrir átakið er valið.
Markaðsseting grunnskóla
Þða eru til ýmsar leiði til að koma grunnskóla á framfæri meðal almennings. Það eru til mörg tæki sem hægt er að nota. Það eru einkum sjö tæki sem menntastofnanir geta notað. Þau tæki eru frábrugðin hver öðru og nota mismunandi merkjamál (e. code) Þau eru t.d að nota auglýsingar sem greitt er fyrir, nýta eigin vettvang til auglýsinga, nýta persónutengsl, koma auglýsingum fyrir þar sem það kostar ekkert, nýta öll kynningartækifæri í blöðum, blaðaviðtölum, sjónvarpi og slíkum miðlum og að lokum að nota bloggformið. (Kotler,2008:300).
Tilefni til að fara í herferðir geta komið upp við sérstök tækifæri eins og afmæli stofnunarinnar, átak í ákveðnum málum og slíkt. Þegar farið er í herferð þarf hún að vera vel undirbúin. Auglýsingarnar þurfa að segja frá einhverju nýju og ná í gegn breyttri hegðun hjá „viðskiptavininum”. Þær þurfa að hafa markmið og takmark. Viðbrögð, tíðni og svörun við auglýsingaherferðinni þarf að vera hægt að mæla. (Kotler,2008:301-305)
Yfirmenn skólastofnanna og starfsfólk þeirra þurfa að skoða þessa þætti gaumgæfilega og finna út hvað hentar því umhverfi sem þeir vinna í, finna út hvað gagnast þeim best og er vænlegast til árangurs. Einnig þarf að huga vel að því hvernig nýta á þær upplýsingar sem fást úr þessari vinnu.
Möguleikar í markaðssetningu
Það eru ýmsir flokkar í markaðssetnigu í boði fyrir skóla til að nota, einkum þegar litið er til þess hvers konar miðla ætti að nota. Þegar hér er talað um miðla er átt við alla þá möguleika sem eru í boði í dag, bæði prentmiðlar, fjölmiðlar eins og útvar og sjónvarp en einnig þeir þeir miðlar sem tölvutæknin býður upp á í dag.
Það sem stofnarnir þurfa að skoða fyrst er getan til að fara í auglýsingar eða kynningar. Þegar að markaðsfræðingar kjósa á milli miðla hafa þeir fjögur atriði í huga. Í fyrsta lagi er skoðað hvar er vaninn að slíkar auglýsignar/umfjöllun birtist. Þá er skoðað hvaða efni (e. product), þjónusta (e. service) eða hegðun (e. behavior) á að markaðssetja. Miðlarnar henta misjaflega til þessa. Í þriðja lagi þarf að huga að skilaboðunum (e. message) sjálfum, þau þurfa að vera áhugavekjandi. Í fjórða lagi þá þarf að huga að því hversu mikinn kostnað (e. cost) á að leggja í kynninguna. (Kotler,2008:306)
Alla þessa þætti þarf að skoða vel, en þeir gætu hentað misvel en það fer eftir stofnunninni sjálfri og því sem hún stendur fyrir en einnig getur landfræðilega staða haft áhrif vegna mismunandi aðgengi að tækninni.
Miðlar
Það eru til margar tegundir miðla sem hægt er að nota þegar um markaðssetningu er að ræða, þeir hafa bæði styrkleika og veikleika.
Þeir miðlar sem eru þekktastir í dag eru prentmiðlar, útvarp og sjónvarp.
Helstu strykleikar þeirra eru:
Stórt upplag mögulegt
Upplýsingum dreift víða
Vinnur vel með dulin skilaboð
Ná til margra, lítill kostnaður
Varðveitir skilaboðin
Nær til margra
Hægt að fá á mismunandi verði
Getur verið gagnvirkt
Miklar endurtekningar mögulegar
Mögulegt að nýta orðstýr
Veikleikar slíkra miðla eru einkum:
Vísað til kunnáttu mótttakanda
Möguleiki á tilfinningalegu ákalli
Hamlandi kostnaður
Starfsfólki líkar ekki að vera í fjölmiðlum
Upplýsingarnar missjónrænar
Engin stjórn á staðsetingu
Nær aðeins til sérstakra hópa
Nær aðeins til útbreiðslustaða miðlanna (Kotler,2008:307)
Þegar skoðað er hvort þetta miðlunarform nýtist fámennum grunnskóla þarf að hug að landfræðilegri legu hans og tenginu við þessa miðla. Héraðsfréttablöð eins og Suðurland og Dagskráin hafa verið dugleg að birta það sem skólarnir hafa sent þeim í fréttatilkynningaformi og/eða koma og taka viðtöl. Slíkur „fréttaflutningur” kostar ekki mikla peninga, heldur kannski frekar hugmyndaauðgi starfamanna skólanna og tíma þeirra. Svæðisútvörp eru til á sumum stöðum sem nætti nýta en einnig hafa skólar stundum verið með tímabundnar útvarpssendingar. Er það t.d. þáttur sem mætti skoða betur.
Hinn nýji miðill
Hinn nýji miðill Netið – Internetið - gefur skólum marga möguleika til að kynna sig og koma sér á framfæri. Það er í örri þróun og möguleikarnir margir. Forsenda þess að það sé hagstætt fyrir grunnskóla á fámennum svæðum og vilja koma sér á framfæri er að aðgengi að Netinu – Netheimum - sé mögulegur og gagnaflutningskerfið nógu stórt til þess að flytja helstu gögn. Einnig þarf að huga að því hvort einhverjir hafi áhuga á því sem verið er að leggja fram í Netheimum.Eitt af því sem er auðveldur möguleiki í dag er að fylgjast með umferð á síðum sem eru opnaðar. Það er gert með ýmiskonar teljurum eða öflugum samantektarforritum (e. power tools). Með þessum greiningartækjum getur skólinn skoðað og reynt að skilja hegðun þeirra sem skoða vefsíðurnar og sjá t.d. hvaða þýðingu lykilorð á vefsíðum hafa. (Weber,2007,133) Eitt af þeim tækjum sem til eru og er ókeypis, er teljari frá Google – (sjá vefsíðu google analytic) en þar þarf einungis að skrá sig inn og fá html-kóda sem er hægt að setja inn á vefsíður sem stofnunin hefur. Upplýsingarnar sem þaðan fást eru margvíslegar, t.d. hversu margir heisækja vefinn, hvaða síður eru skoðaðar, hvernig þeir sem skoða síðuna fara inn á hana, beint eða með leitarorði. Einnig er hægt að sjá hvaða leitarorð eru notuð og margt fleira sem kemur að gagni við markaðssetningu.
Vefsíður
Heimasíður eru andlit skólannna út á við og þær geta aukið þjónustu við heimilin en einnig að koma eigin skólastefnu á framfæri og segja frá því fyrir hvað skólinn stendur. Kostnaður við gerð vefsíða er afar misjafn og fer eftir því hvað stofnunin vill leggja út í mikinn kostnað. Í dag er hægt að gera einfaldar vefsíður ókeypis t.d. hjá Google á pages.google.com. Ef slíkar vefsíðugerðir eru notaðar verður lénið sem notað er ekki lýsandi fyrir skólann og kemur því seint og illa fram í leitarvélum.(Weber,2007:45-48)
Þetta þarf skólinn að hafa í huga þegar hann setur upp vefsíður sem eiga að vera til kynningar fyrir skólann en vefsíður eins og googlepages geta verið góðar t.d. fyrir bekki og minni hópa til að koma verkum sínum á framfæri og má þá tengja slíkar vefsíður við aðalvefsíðu skólans og vera þannig aðgengilegar fyrir alla.
Hér hefur aðeins verið vikið að þeim þætti á vefsíðum er lýtur að svo kölluðum ytri vef, þar sem upplýsingar eru aðgegnilegar fyrir alla en einnig er til það sem er kallað innri vefur en hann er einungis opinn þeim sem hafa lykilorð til að komast inn á vefsíðurnar. Í innri vef skóla geta verið ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem eiga nemendur í skólanum og þá sem starfa þar. Þar eru settar fram upplýsingar sem tilheyra bara þeim hópi. Þar geta farið fram skoðannaskipti sem liður í undirbúningi á ákveðnum þáttum skólastarfsins. Þar inni geta einnig verið kannanir fyrir skólasamfélagið og annað sem ekki á erindi til allra. Þetta er kostur sem væri vert að skoða fyrir grunnskóla. Á ytri vef skólans væru þá upplýsingar sem allir hefðu aðgang að. Þetta er eitthvað sem skólar geta skoðað og athugað hvort hentar þeim áherslum sem þeir hafa sett sér.
Blogg - dagbókarskrif
Eitt af því sem hefur rutt sér til rúms á Netinu er blogg eða dagbókarskrif. Þetta getur verið góður kostur fyrir grunnskóla sem hliðarverk við heimasíðu, þar er hægt að segja frá á daglegu ritmáli (óformleg skrif) hvað verið er að gera í skólanum hverju sinni, nemendur gætu átt pistil dagsins og kennarar hefðu möguleika á að koma kennslufræðilegum hugmyndum sínum á framfæri. Þarna gætu farið fram skoðannaskipti á milli heimilis og skóla. Þetta gæti þó verið afar vandmeðfarinn þáttur í bloggheimum. Einnig gefur bloggið mikla möguleika við að ,,linka” inn á aðra þætti skólastarfsins sem eru komnir á Netið. Kosturinn við bloggið er t.d. að peningalega séð er að hægt er að opna ókeypis bloggsíður og nýta. Kostnaður er því hverfandi nema að borga starfsmanni fyrir að halda utan um síðuna og sjá til þess að hún sé skólanum til framdráttar.(Weber,2007:69-78)
Í hverjum skóla gæti verið t.d. bekkjarblogg, þar sem hver nemandi bloggar um hugarefni sín, um námið og skólann. T.d. voru nemendur í 1.bekk Hrafnagilsskóla að setja upp bloggsíðu með kennaranum sínum nú í des 2008 þar sem á að fjalla um það sem er að gerast í bekknum. (sjá: http://1bekkur.blog.is/blog/1bekkur/ ) Nemendur í 8.bekk Stóru Vogaskóla eru einnig með bloggsíðu þar sem á að taka fyrir verkefni um eineltismál.(sjá: http://8bekkur.blog.is/blog/8bekkur/) Einnig gætu kennarar og annað starfsfólk verið með bloggsíður um skólamál eða eigin hugarefni. Allar þessar bloggsíður geta verið tengdar inn á aðalvefsíðu skólans, þannig hafa allir aðgang að því sem tengist skólanum.
Tengslanet
Í Netheimum eru til alls konar tengslanet. Þau ganga út á eigandi síðunnar sem stofnað er til segir frá sjálfum sér og því sem hann vill koma á framfæri. Þetta er sá þáttur sem fer stækkandi í Netheimum. (Weber,2007:21-43). Helstu tengslanet sem notuð eru af almenningi á Íslandi í dag eru annars vegar Facebook.com og hins vegar MySpace.com. Í tengslanetunum er oft málið að safna nógu mögrum „vinum” (e. friends) sem geta haft samskipti sín á milli. Í gegnum þessi tengslanet er gott að ná til ungs fólks en í dag en um fjórðungur Ísendinga er á Facebook í dag. (sjá mbl.is,2008)
Þannig ætti að vera möguleiki að ná til einhverra sem hafa skólamál sem áhugamál og skapa umræðu um þau. Þetta er kannski það sem er vinsælast í dag í Netheimum. Því þarf starfsfólk og aðrir sem starfa við skólann að vera vakandi fyrir því sem er að gerast í tækninni og fylgjast með hvað er nýjast og hvað er vinsælast.
Margmiðlunarefni á vef
Eitt af því sem tölvutæknin býður upp á er að vera með „lifandi efni”. Efni sem er unnið úr myndbandsupptökum og sett á Netið. Þessi möguleiki gerir skólum kleift að taka upp það sem verið er að gera í skólastarfi og setja út á opnar og almennar síður. Dæmi um slíka síðu er t.d. Youtube.com (Weber,2007:81)
En það er einnig hægt að setja einungis talað orð á vefinn en ætla má í heimi myndefnis að slíkt nái engri útbreiðslu.
Með „lifandi efni” er hægt að gera skólann sýnilegri á nútíma máta og búa til myndbönd sem sýna frá skólastarfinu sjálfu, húsnæðinu og umhverfi þess. Myndir segja oft meira en ritað mál og er því tilvalið að nýta sér tæknina sem til er. Markaðsetning með „lifandi efni” er því einn af þeim nútímakostum sem eru fyrir hendi í dag fyrir skóla.
Siðferði markaðssetningar á Netinu
Orðstír er eitt af því sem er nauðsynlegt að huga að í viðskiptum. Skólar þurfa að huga vel að þeim þætti. Ef skóli er í framvarðalínu með því að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri er hann hugsanlega fyrirmynd þeirra nemenda og foreldra sem fóta sig um á nýjum slóðum tækninnar.
Lokaorð
Hér hefur verið farið í gegnum það hvort það er hægt að gera nám í grunnskóla markaðshæft, hvað þarf til þess og hvers vegna það ætti að þurfa að markaðssetja grunnskóla. En einnig; hvernig er best fyrir grunnskóla að markaðssetja/markaðsfæra sig. Einkum var litið til þess hvernig fámennir skólar geta komið sér á framfæri.
Þegar litið er á það sem stjórnvöld setja fram eins og grunnskólalög og aðalnámsskrá grunnskóla má segja að þau leggi aðallínurnar í skólamálum landsins en innan þessara ramma hafa sveitarstjórnir og skólastjórnendur ýmsa möguleika til að sérhæfa skólana og gera einstaka liði skólastarfsins að séreinkennum skólans. En það er einnig fjárhaglegi þátturinn sem þarf að líta til. Sveitastjórnir verða jafnframt að vera tilbúnar til að láta jafnvel aukið fjármagn til skólans/skólanna til þess að skapa þessa sérstöðu.
Ef sveitastjórn hefur áhuga á að efla skólann/skólana sína er ein leiðin að markaðssetja hann/þá. Til þess að það sé vænlegur kostur þarf að vinna „heimavinnu”. Fyrst þarf skólinn og starfsfólk hans að setja niður markmið og framtíðarsýn skólans. En það er ekki nóg það þarf einnig að afla markaðsupplýsinga og vinna úr þeim. Það þarf að finna út hvaða rannsóknaraðferð hentar skólanum sem og sjá út hvaða möguleikar eru fyrir hendi í markaðssetningunnni. Þegar að þessu er lokið þarf að líta til þess hvað möguleikar eru til að koma skólanum á framfæri.
Þegar að skóli skipuleggur sig til framtíðar getur hann haft í huga að fjölbreytt skólaflóra getur verið nauðsynleg. Sérhæfing eða sérstaða skóla er þá valkostur fyrir þá sem hafa ákveðnar hugmyndir um skólamál. Þar er hægt að líta bæði til þeirra sem eiga að sækja grunnskóla og þeirra sem vilja vinna við skólana.
Þetta þurfa þeir sem standa að skólamálum í sveitarfélögum að undirbúa vel og vinna í samráði við starfsfólk og foreldra skólans. Þegar að allri nauðsynlegri undirbúningsvinnu er lokið eins og hér hefur verið fjallað um er hægt að fara að huga að því hvernig koma á skólanum á framfæri; annars vegar við þá sem njóta þjónustu skólans sjálfs og hins vegar að ná í nýja „neytendur” – nýja nemendur. Það er líka kostur fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa við stofnunina að geta skoðað hvað stofnunin stendur fyrir áður en viðkomandi sækir um starf. Starfsmaðurinn veit þá að hverju hann gengur að, að hvers konar stofnun hann ræður sig til og fyrir hvað hún stendur.
Það þarf í öllum tilvikum að fylgja eftir því sem lagt er fram og unnið er hverju sinni, það er ekki nóg að gera t.d. eina markaðskönnun einu sinni og halda að hún sé hinn stóri sannleikur. Það þarf að skoða niðurstöðurnar, lesa úr þeim niðurstöðum, laga og breyta því sem þær gefa okkur til kynna. Þegar að það er búið þarf að gera aðra könnun þar sem athugað er hvort skólinn hefur náð eða komist nær þeim markmiðum sem hann setti sér í upphafi. Síðan þarf að taka fyrir nýja þætti og skoða og vinna eins. Þetta þarf að gera við flesta þætti skólastarfsins til þess að skólinn viti hvort hann er á þeirri leið sem hann vill vera á. Það þarf að nýta alla þá vinnu sem lögð er í markaðssetninguna til þess að færa skólann nær öllum þeim markmiðum sem hann setur sér.
Ef skólinn vill vera í framvarðasveit á sínu sérsviði kostar það mikinn og vandaðan undirbúning. Undirbúningurinn er forsenda þess að vel takist til. Ef að hann tekst vel, er ekki ólíklegt að umræða um stefnur og strauma í skólamálum verði meiri, fjölbreyttari og kannski faglegri. Einnig væri gott fyrir skólann ef hróður skólans yrði til þess að það yrði eftirsóknarvert að flytja í sveitarfélagið vegna skólans, sem og að það þyrfti ekki að auglýsa eftir kennurum heldur að kennarar myndu sækja um án auglýsingar og hægt væri að velja úr „bestu” starfskraftanna sem henta fyrir þá skólagerð sem rekin er. Þetta gæti því verið margfaldur ávinningur bæði fyrir skólann/skólana og sveitarfélagið.
Vandaður undirbúningur, markviss vinna og eftirfylgni þess sem unnið er er því forsenda þess að vel takist til.
Heimildir
Aðalnámskrá grunnskóla. (2007). Almennur hluti. Reykjavík:Menntamálaráðuneytið.
Andreasen, A.R. og Kotler, P. (2008). Strategic Marketing for Nonprofit Organizations. (7. útg.). New Jersey: Pearson Education.
Bogi Þór Siguroddson. (2000). Sigur í samkeppni. Reykjavík:Bókaklúbbur atvinnulífsins,Heimsljós.
Epstein,K.A. (2006). Marketing made easy. Wiscosin: Entrepreneur press.
Gleeck, F. (2001). Marketing and Promoting Your Own Seminar and Workshop. USA: Fast forward press.
Google.com. (e.d.). Analytics. Sótt 20.nóvember af http://www.google.com/analytics
Hrafnagilsskóli. (e.d.). Bloggsíða. Sótt 5.desember 2008 af http://1bekkur.blog.is/blog/1bekkur/
Ingunnarskóli. (e.d.). Heimasíða. Sótt 30.október 2008 af http://ingunnarskoli.is/index.php?option=com_content&task=view&id=111&Itemid=189
Mbl.is. (2008, 3. nóvember). Fjórðungur þjóðarinnar á facebook, Sótt 3.nóvember.2008 af, http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/11/03/fjordungurthjodarinnar_a_facebook/)
Norðlingaskóli. (2006, september). Grunnskólar í Reykjavík. Viðhorf forráðamanna nemenda.
Norðlingaskóli. Sótt 30. október 2008 af http://www.nordlingaskoli.is/ymislegt/mat_skolastarf/20062007/Mat%20MR%20vor%2006% 20Nordlingaskoli06.pdf
Norðlingaskóli. (e.d.). Útikennsla. Sótt 30.október 2008 af http://www.nordlingaskoli.is/utikennsla.htm
Samtök fámennra skóla. (e.d.). Sótt 3.nóvember 2008 af http://www.ismennt.is/vefir/sfs/umsfs.htm
Stóru-Vogaskóli. (e.d.). Bloggsíða. Sótt 5. desember 2008 af http://8bekkur.blog.is/blog/8bekkur/
Valgerður Gunnarsdóttir. (2002, 9.janúar). Fámennir framhaldsskólar – staða þeirra og framtíð. Netla-Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 20.október 2008 af http://netla.khi.is/greinar/2002/007/04/index.htm
Viralmarleting.com (e.d.). Heimasíða. Sótt 30.október 2008 af
http://www.viral-marketing.com/
Weber,S. (2007). Plug your business. Marketing on MySpace,YouTube, blogs and podcasts. USA: Weberbooks.
Ummæli