Verksmiðjan - nýsköpunarkeppni 2019


Verksmiðjan – nýsköpunarkeppni 2019










                Í byrjun desember 2018 er kynnt til sögunar nýtt verkefni Verksmiðjan sem átti að vera nýsköpunarkeppni fyrir unglinga á grunnskólastigi. Þetta hljómaði vel og aðstoðarskólastjórinn Lára Bergljót hvatti mig eindregið til þess að taka þátt í þessu verkefni fyrir hönd skólans og stýra því. Ég viðurkenni að mér fannst þetta mjög spennandi og öngrandi verkefni þar sem það er ekki hefð fyrir slíkri vinnu í skólanum og nemendur ekki beint þjálfaðir í að vinna slíka vinnu sem nýsköpunarhugsunin er. Niðurstaðan var sú að fara á kynningarfund í fab-labinu á Selfossi þar sem farið var yfir hugmyndirnar og kynnt hverjir stæðu að verkefninu.  Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Fab Lab á Íslandi, menntamálaráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listasafns Reykjavíkur og RÚV.

Fyrir hönd skólans fór undirrituð og Lára Bergljót aðstoðarskólastjóri Bláskógaskóla Reykholti á kynningarfund hjá Fablab á Selfossi um verkefnið.
Þar kom fram að verkefnið er tilraunaverkefni og er enn í mótun. Vefsíða verkefnisins kemur upp í janúar nk. Hugur Rúv-manna er að, þó svo að öll innsend verkefni komist ekki áfram verði hinum fylgt eftir og þróuð áfram og nemendur verði hvattir til að senda inn myndbönd af verkum sínum (með útskýringum og frásögn af framgangi mála – myndbandið yrði væntanlega unnið jafnhliða verkefninu/viðfangsefninu sjálfu.) Þá kom einnig á fundinum að nemendur mættu nýta sér aðstoð frá þeim fyrirtækjum sem standa að keppninni. Einnig kom fram á fundinum að nemendur leita gjarnan til nærsamfélagsins um aðstoð og hafi það gefist vel.

                Eftir kynningarfundinn var ákveðið endanlega að taka þátt í verkefninu og Verksmiðjan kynnt fyrir nemendum á unglinastigi (19.12.) og var strax áhugi hjá nokkrum nemendum að taka þátt. Þá var næsta skref á senda kynningarbréf (20.12) heim til foreldra og þeir beðnir um að ræða málið heima en einnig að aðstoða skólann/nemendur eins og hægt væri m.a. að hvetja þau til dáða. Hjálpa þeim að komast af stað með verkefnið og jafnvel útvega efni sem þarf til að gera verkefnið að veruleika ef þess þyrfti.

Í kynningarbréfinu til foreldra stóð m.a:
Verksmiðjan hvetur ungt fólk til að taka eftir hugmyndum sínum og umhverfi og finna lausnir á ýmsum vandamálum, stórum sem smáum. Þátttakendum er fylgt eftir og þeir myndaðir af framleiðsluteymi RÚV.  Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða sýndir á RÚV í vor.
Keppninni er skipt niður í 3 skref:
1.       Nemendur senda inn hugmyndir sínar í gegnum vefsíðu – síðasti skiladagur er 7.febrúar
2.       30 hugmyndir eru valdar til þess að þróa áfram – hugmyndir frá öllum svæðum landsins komast að þeas suðurland fær ákv. pláss – þeas hugmyndum verður jafnað á landshluta. 10 bestu hugmyndirnar af þessum 30 verða þróaðar áfram með að stoð FabLab smiðjanna og nemendur fá jafnframt að vinna með fyrirtækjum í atvinnulífinu. Hugmyndunum verða gerð skil á heimasíðu Verksmiðjunnar (sem verðu opnuð í janúar)
3.       Sigurvegarinn verður síðan kynntur á lokahátíð Verksmiðjunnar – 24. maí.
Hugmyndin sem vinnur fer í framleiðslu og verður að veruleika.

Í Bláskógaskóla hefur ekki verið mikið unnið á þessum nótum og við aldrei tekið þátt í nýsköpunarkeppni grunnskólanna, http://nkg.is/, en það á ekki að vera nein fyrirstaða. Eins og staðan er núna þá hefur ekki verið ákveðið hvaða kennari muna aðstoða þá nemendur sem taka þátt við verkefnin né undir hvaða tíma þetta fellur. Ef það eru margir sem taka þátt verður líklega búinn til hópur og hann látinn falla undir valtíma en ef þetta eru einungis einn eða tveir einstaklingar/hópar þá verður fundið út í samráði við viðkomandi hvaða form væri best að hafa á vinnunni. Ráðleggingar þeirra sem hafa reynslu af svona vinnu er að þetta sé frekar einstaklingsverkefni eða tveggja manna verk en stærri hópur.

Þess skal getið að verkefnin eru ekki miðuð við einhverja eina eða tvær greinar heldur er leitast við að fá hugmyndir á sem víðustum grunni rafmagn, tré, járn, plast, tölvur, forritun, myndverk, videoverk, þ.e.a.s  hönnun í víðasta skilningi þess orðs. Í dag er endurnýting ,,í tísku“ og er kannski vert að beina sjónum sínum að þeim vettvangi.

                Eftir jólafrí var áhuginn kannaður hjá nemendum og voru 11 nemendur af 19 sem vildu taka þátt og þau höfðu notað jólaleyfið til þess að hugsa um nýjar hugmyndir og flesti komnir með einhverja mynd af því hvað þau ætluðu að vinna. Búinn var til vinnuhópur sem fékk úthlutað tvær kennslustundir á föstudögum meðan að verkefnið væri í  gangi. Einnig voru nemendur hvattir til heimavinnu.  11. Janúar fer síðan formleg vinna af stað. Þá var nemendum kynntar vefsíður og önnur náms- og hjálpargögn til þess að átta sig á vinnubrögðum sem þarf að tileinka sér í þessari vinnu.
Þegar að verkefnið var aðeins komið af stað og nemendur búnir að hugsa um hvernig þau gætu útfært sína hugmynd að kröfum keppninnar og það að koma því frá sér sem manni dettur í hug. Þau fengu verkefnablað frá kennaranum til þess að vinna eftir þar sem ákveðinn ,,strúktúr“ var settur upp.  Þá var sett upp námslota í námsumhverfinu Mentor sem skólinn notar. Þar inni var efni til að vinna útfrá . Þar voru nemendur hvattir til þess að vista nýsköpunarblaðið sitt (sem kennarinn útbjó) á spjaldtölvunni sinni og vinna það þar – einnig að hlaða niður hugarkortsappi og nýta það til þess að velta upp öllum hliðum á verkefninu sem þau voru að vinna í. Þau voru hvött til þess að vanda alla undirbúningsvinnu vel og hafa hana nákvæma. Það myndi auðvelda vinnuna á síðari stigum. Þessari vinnu átti að ljúka fyrir 7. febrúar.

Í námslotunni var lögð áhersla á að Í aðalnámskrá grunnskóla 2013 er lögð áhersla á að nemendur komi að nýsköpun í flestum námsgreinum. Orðið nýsköpun kemur fyrir 22svar fyrir í mismunandi greinum.
Þar er lögð áhersla á að nemandinn sé virkur í hönnunarferli og móti útlit og uppbyggingu hluta miðað við notkun þeirra. Þar fléttast einnig inn áhersla á nýsköpun og hagnýtingu þekkingar. Nemandinn hefur þannig áhrif á umhverfi sitt og er um leið hvattur til að sýna umhverfinu nærgætni og virðingu. (bls.155) Einnig er lögð áhersla á hagnýtingu þekkingar (bls. 155) og að unnið sé eftir verkferli nýsköpunar, þ.e. leitað að þörfum í daglegu umhverfi fólks, fundin lausn, hönnuð afurð, einn eða með öðrum. (bls.178). Það að skilja og vera læs á umhverfið er forsenda þess að hafa áhrif á það. (bls.152)  Og að nemandinn geti gert grein fyrir áhrifum nýsköpunar á umhverfi sitt og samfélag. (bls.157) Lögð er áhersla á frjótt skapandi starf, verklega færni og sjálfstæði. (bls.38)
Hugtakið ,,Hugmynd-lausn-afurð“ í nýsköpunarkennslu tengist því beint í aðalnámsskrá grunnskóla 2013 þar sem að þau fá tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri og hafa þannig áhrif á umhverfi sitt og fara í það ferðalag að skapa, prófa og hafa áhrif á eigið nám.
Með þetta að leiðarljósi var ákveðið að bjóða nemendum upp á að taka þátt í þessu verkefni, ferðalagi sem Verksmiðjan 2019 er.

Markmiðið með nýsköpunnarkennslunni og hugmyndavinnunni er:
1.                  Að hvertja nemendur til að virkja sköpunarkraftinn, tjá hugmyndir sínar á skipulegan og skýran hátt
2.                  Að hvetja nemendur til að taka frumkvæði á námi sínu og vera sjálfstæður í vinnubrögðum sínum
3.                  Að hvetja nemendur til að sýna styrkleika sína og nýta þá.
4.                  Að æfa nemendur í gangrýninni hugsun
5.                  Að virkja hugvit nemandans og fá hann til að hugsa út fyrir rammann
6.                  Að efla viðhorf hans í lausnahugsun af ýmsu tagi
7.                  Að gera námið merkingabært – nemendur sjá hugmyndi sínar verða að veruleika
8.                  Að nemendur efli með sé skapandi hugsun og frjótt ímyndunarafl
9.                  Að nemendur eflist í að skýra út og koma frá sér hugmyndum í máli og myndum
10.              Að nemendur öðlist trú á eigin getu

Þetta er það leiðarljós sem nemendur höfðu. Vinnutímarnir voru vel nýttir og rétt fyrir skil kynntu nemendur hugmyndir sínar fyrir námshópnum og síðan samnemendum sínum og skemmtilegar umræður sköpuðust um verkefnin. Ýmsir nýir vinklar komu inn eftir umræðurnar og sumt af því var nýtt. Þá fengu nemendur einkaviðtalstíma við undirritaða þar sem var farið í smáatriði hverrar hugmyndar og rætt hvað væri gott og hverju –ef einhverju mátti breyta. Þann 07.02., skiluðu nemendur í Bláskógaskóla Reykholti inn 10 hugmyndum. Einn skilaði inn tveimur hugmyndum og 5 einstaklingar skiluðu inn einni hugmynd og tveir einstaklingar skiluðu inn 2 hugmyndum saman og tveir skiluðu saman einni hugmynd. Ekki voru sendar inn hugmyndir sem búið var að vinna aðeins í því nemendum þótti þær ekki nógu vel undirbúnar. Nú var komin spenna í hópinn eftir að hafa legið yfir verkefnunum og útfært þau eins vel og þau gátu.  

Tillögur sem nemendur sendu inn voru :

1.       Sigurður S.Á. Sigurjónsson – Mótóljós - Vera með ljós á mótorkrosshjóli til að sjá í myrkri og útvarp þegar þér leiðist á hjólinu. Síðan vera með öpp til að hjálpa þér á æfingum og halda úti dagbók.
2.       Dagur Úlfarsson Endurbætt íþróttataska - Þessi hugmynd er Íþróttataska með nýjum hugmyndum/þáttum, þar á meðal eru loftgöt á skóhólfinu svo að það komi ekki mikill svitalykt af þeim. Það er líka nestishólf sem er gert með efni sem heldur sama hitastigi svo að maturinn eða drykkurinn haldist kaldur.
3.       Jóna Kolbrún Helgadóttir og Unnur Kjartansdóttir FEÞ (Finndu eignir þínar) - Þessi hugmynd okkar er staðsetningartæki sem maður getur límt á hluti sem eru líklegir að tínast. Hægt verður að fylgjast með hvar staðsetningartækið eða hluturinn sem þú límdir staðsetningartækið á er staðsett með appi sem maður hleður í símann, ipadinn eða tölvuna sína. Tækið á að vera hringlaga, 1 cm í þvermáli og 0,2 cm þykkt svo það fari sem minnst fyrir því. Einnig þarf gott lím eða annað til að halda tækinu á sínum stað.
4.       Magnús Hafsteinsson Tappi fyrir uppþvottavélar - Nýsköpunin felst í að nota tappa sem komið er fyrir í sápuhólfi þvottavéla. Þá minnkar rúmmál hólfsins sem hýsir þvottaefni. Þannig er notandinn þvingaður til notkunar minna þvottaefnis. Hólf uppþvottavéla eru mjög svipuð að stærð óháð tegundum. Það sama á við um þvottavélar.
5.       Magnús Skúli Kjartansson Bollalok - Þetta er lok sem fer á bolla svo að maður brennir sig ekki og hrærir fyrir mann. Í lokinu kemur hrærispaði sem er kaldur sem kælir drykkinn t.d kakó.
6.       Sigríður Mjöll Sigurðardóttir og Þórhildur Júlía E. SæmundsenGOGG - Goggurinn hjálpar til þegar verið er að hella í annað ílát. Maður þarf gogginn til að það sullist ekki niður því það eyðir pening og tíma, Nýmælið er að það sullast ekki niður eftir ílátinu.
7.       Sigríður Mjöll Sigurðardóttir og Þórhildur Júlía E. Sæmundsen – Sjálfhitandi smjörhnífurinn - Finnst þér pirrandi þegar brauðið rifnar út af því að smjörið er of hart? Sjálfhitandi smjörhnífurinn lagar það. Kostir hugmyndarinnar eru að þú sparir tíma og jafnvel pening með því að þurfa ekki að eyðileggja brauðið þitt.
8.       Skírnir Eiríksson – Kefli í kassa - Þetta er hjól/kefli í litlum kassa sem er hægt að seta saman og gera að stórum kassa sem er fljótlegt að tengja síma og myndavélar til að hlaða og minnkar snúruflækjur á vinnustöðum líka væri hægt að tengja við sérhannað batterí þannig að þetta er lítið og þægileg stykki til að hafa með sér til að hlaða.
9.       Sigurður S.Á. Sigurjónsson – Fjarstýrðar björgunarbörur - Þetta á að hjálpa Björgunarsveita fólki í aðstæðum þar sem erfitt er að labba með börur. Verða tveir mótorar bæði að framan og annar að aftan síðan verður stýrisbúnaður að framan.
10.   Matthías Jens Ármann – Teygjó - Hugmyndin er teygja sem þú setur á fótbotaskóinn þinn og app sem tengist við teygjuna í gegnum bluetooth og þá þarftu ekki að telja hversu oft þú snertir boltann og þú getur séð í línuritum bætingarnar.

Eftir að skiladagur rann út var tilkynnt að um 400 tillögur hefðu verið sendar inn og þá voru tilkynntar 30 bestu hugmyndirnar (06.03) og gleðin í skólanum var mikil þegar að einn af okkar nemendum komst áfram, Matthías Jens Ármann með hugmyndina sína Teygjó, Teygja fyrir fótboltaskó sem telur snertingar við boltann.

Hugmynd Matthíasar er:
 Aðferðin:
1.       Hvert er vandamálið sem á að leysa?
Hugmyndin er teygja sem þú setur á fótbotaskóinn þinn og app sem tengist við teygjuna í gegnum bluetooth og þá þarftu ekki að telja hversu oft þú snertir boltann og þú getur séð í línuritum bætingarnar.
2.       Fyrir hvern er hugmyndin/hver er markhópurinn?
Fótbolta áhugamenn sem vilja verða betri í fótbolta.
3.       Hver er nýsköpunin?/Hvert er nýmælið?
Hugmyndin er mjög hentugt t.d þegar þú ert að halda á lofti eða gera einhverja æfingu sem snýst um að snerta boltann eins oft og þú getur eða bara spila fótboltaleik. Appið sýnir ekki bara hversu oft snertir boltann,það kennir þér nýjar æfingar og hjálpar þér að verða betri og betri í fótbolta með því að bæta metið síðan í gær. Síðan verða línurit til að sjá bætinguna þína seinasta mánuð eða ár.Teygjan á að þekja reimarnar alveg og á botninum verða mörg þunn göt sem takkarnir fara í gegnum og eru þá ekki fyrir.
4.       Hverjir eru kostir hugmyndarinnar?/Hvað bætir hugmyndin?
Maður þarf ekki að telja hversu of þú snertir boltann, maður sér
bætingarnar og teygjan heldur reimunum á sínum stað
5.       Hverjir eru gallar hugmyndarinnar?/Hvað mætti bæta?
Það er erfitt að finna góðan stað fyrir bluetoothsendirinn og það skemmir að sparka alltof fast í boltann og það gæti verir flókið að
búa til app.
6.       Hvaða ,,efni“ þarf hugsanlega að nota í hugmyndina?
Teygjanlegt og sterkt efni og einhverjir tölvuhlutir.
7.       Er uppfinningnin þín umhverfisvæn?
Já, þetta er margnota og þetta getur verið búið til á góðan hátt í
flottri verksmiðju
8.       Umbúðir utan um hugmyndina? Hvernig myndu þær vera?
Ég veit ekki, kannski pappír og einhver mynd og síðan aðstoðar bæklingar og logó.
9.       Hvaða þættir koma að hugmyndinni?
Í teygjunni eru höggskynjarar síðan verður bluetooth sendir efst á teygjunni, síðan þarf að búa til app.

Þegar hér var komið þurfti að setjast niður og hugsa næstu skref, við Matthías fórum saman í fablabið á Selfossi þar sem við hittum hina þátttakendurna sem komust frá suðurlandi. Þarna notuðum við tímann, dagpart, til þess að kynnast því sem að fablabið býður uppá og ræða við Magnús í fablabinu um næstu skref hjá Matthíasi. Þá var ég í sambandi við foreldra Matthíasar eftir þetta því ljóst var nú að nú yrðum við að vinna saman. Þau tóku frábærlega vel í að vinna með skólanum og hafa þau farið margar ferðirnar með Matthías á Selfoss til að vinna  og oft með stuttum fyrirvara.
Matthías skilaði síðan inn verkefninu í lok febrúar og þarna er hann í 30 manna úrslitum og til að gera langa sögu styttri þá komst Matthías áfram í 10 verkefna úrslitin og Teygjó var kynnt á vef ungruv.is  Einnig er myndband sem sýnir hvernig hugmyndin er hugsuð.

Nú var að halda áfram og fara yfir næstu skref og fara eftir leiðbeiningum frá stjórnendum keppninnar. Þetta skipulag kostaði marga tölvupósta og margar ferðir á Selfoss. En héðan frá Reykholti er rúmir 40 km svo þetta var nokkur akstur og tími sem fór í ferðir hjá Matthíasi. Hann þurfti að huga að mörgum þáttum og prófa sig áfram með forritunarkubba, teygjur, finna réttan móttakara, forrita app og huga að ýmsu öðru tengdu verkefninu. Á Selfossi vann Matthías með Magnús í fablabinu, einnig með Eyjólfi forritara frá Skemu . Einnig komu myndatökumenn frá sjónvarpinu til að mynda verkferlana. Nú var verkefnið að verða enn raunverulegra og spennan að magnaðist.   Matthías skilaði sínu og nú þurftum við að bíða. Að lokum kom að uppskeruhátíðinnií Listasafni Íslands þar sem að úrslitin yrðu kynnt.  

Uppskeruhátíðin var síðan 22. maí. Búið var að setja upp sýningu á innsendum verkefnum, þá voru plaköt sem fylgdu hverju verkefni.
Dagskrá hátíðarinnar var svo:
·         Stutt ávörp
·         Verðlaun afhent
o   Samfélagsverðlaun
o   Umhverfisverðlaun
o   Fyrstu verðlaun Verksmiðjunnar
·         Daði Freyr leikur á glænýtt hljóðfæri


Það fór svo að tillaga Matthíasar var fékk samfélagsverðlaun Verksmiðjunnar en það voru viðbótarverðlaun frá því sem upphaflega var tilkynnt. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri afhenti Matthíasi verðlaunin.  Magnús Geir las upp úr niðurstöðum dómnefndar og þar sagði hann meðal annars: Höfundurinn hefur fundið áhuga sínum farveg og mjög þarfa lausn á einhverju sem virðist ekki vera til. Þessi hugmynd er mögulega stærri en höfundinn grunar. Varan gæti sannarlega slegið í gegn meðal knattspyrnufólks. Það var síðan glaður hópur sem fór heim í Bláskógabyggð eftir hátíðina. Stoltir foreldrar, vinur Matthíasar, Magnús sem lék í myndbandinu hans, kennari og aðstoðarskólastjóri.. 

Hvað framhaldið verður með svona nýsköpunarkennslu í skólanum og þátttöku í keppnum í tengslum við hana þá veður lagst yfir það nú á vordögum, hvort og hvernig við ætlum að standa að svona vinnu í skólanum.

Þá verður einnig spennandi að sjá hvort að Matthías fylgir verkefninu eitthvað áfram og gerir það að veruleika. Matthías – haltu áfram með þetta !
Að lokum langar mig að þakka öllum sem komu að þessu verkefni skólans, þakka skólastjórnendum það traust að fá að stýra þessu verkefni innan skólans, þakka Magnúsi í fablabinu á Selfossi fyrir eljuna og öðrum sem stóðu að Verksmiðjunni. Þá stendur uppúr hvað foreldrar Matthíasar, þau Helena og Knútur voru áhugasöm og tilbúin að aðstoða verkefnið, skólann og Matthías. Takk öll.


                                       Bláskógaskóla 23.05.2019Agla Snorradóttir




Ummæli

Vinsæll póstur

Ferð starfsfólks Bláskógaskóla Reykholti til Ítalíu, 30.04.2019 – 05.05. 2019

Prjónakennsla

Utís 2019 - Upping your classroom - Jesse Lubinsky