Óvænt reynsla
Það er ýmislegt sem getur komið fyrir mann, ég var sem oftar á leiðinni til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgunn. Allt gekk að óskum þar til ég kem að brekkunni niður að Litlu kaffistofunni, þá heyri ég skyndilega að eitthvað er að gerast með Citroen, óþekkt hljóð og svo allt í einu smellur og rýkur úr bílnum. Ég stoppa og "hleyp"- það stóð í blaðinu - út til að gá hvað er að, sé að það rýkur úr bílnum, hringi í manninn minn og segir hvað er að, á meðan ég fer aftur nær bílnum og þá er dóttir mín sem var hálfsofandi í bílnum komin út og búin að taka dótið okkar, bíllinn orðinn fullur af reyk og vegfarandi, sem sennilega bjargaði lífi hennar og mín, öskrandi á okkur að koma okkur í burtu því það sé kviknaði í, undir bílnum. Þegar við "hlaupum" frá bílnum gýs upp eldur og tvær sprenginar heyrast og bíllinn brennur til kaldra kola. Okkur mæðgurnar sakaði ekki líkamlega en erum enn að vinna úr sjokkinu. Lögreglan kom fljótt á staðinn og stóð sig vel, en mér fannst heil eilífð í slökkviliðið en þegar ég lít til baka var það kannski bara biðin sem gerði tímaskinið svona vitlaust. Lögreglan stoppaði umferðina á veginum í um 20 mín meðan að verið var að vinna í málinu. Ég er alltaf jafn hissa á fólki sem drífur að og glápir þegar slys gerast, bara til að horfa. Eins og ég upplifði þetta voru tveir menn sem komu strax að slysinu, sem raunverulega sáu hvað var að gerast og leiðbeindu okkur mæðgum, síðan gaf læknir sig fram við lögregluna og bauð fram aðstoð sína, aðrir voru "bara" að glápa.
Síðan var/er ég enn hissa á því að þetta skuli vera fréttamatur, hef að vísu aldrei skilið fréttaflutninga af slysum, að þetta skuli vera efni í forsíðufrétt eins og í blaðinu í gær. Að auki var fréttin að mínu mati færð í stílinn og að auki hljóp ég aldrei inn á kaffistofuna til að biðja um slökkvitæki, það hefur sjálfsagt verið vegfarandi.
Einnig var ég hissa á því að vefur Morgunblaðsins var búinn að birta mynd og texta af slysinu, kl.9.50 en ég stoppa bílinn kl. 9.30 og ég hringi í manninn minn kl. 9.40 og föður minn kl. 9.49 til að tilkynna þeim að bíllinn er í ljósum logum, aðra hafði ég ekki hugsun á að hringja í á þessum tíma, af mínum nánustu en þá er vefur Morgunblaðsins um það bil að birta fréttina, kl.9.50 með myndinni sem sést hér að ofan sjá : http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1274600 .
Ég lærði í skátunum í gamala daga að aðgát skal höfð í nærveru sálar, að maður nái ekki að tilkynna sínum nánustu um hað hefur gerst er óþolandi, það var þó ekkert líkamlegt að okkur og gátum hringt sjálfar, hvað ef við hefðum ekki getað hringt og lögregla á fullu að vinna á slysstað? Bíllinn var gamall Citroen, auðþekkjanlegur öllum sem þekkja okkur, það eru fáir svona bíla eftir á götunni, það sést vel á myndinni hvað tegund og litur er á bílnum, hvað þá ef að við hefðum nú slasast og svo framvegis............
En þetta er búið og gert, drifum í því í gær að ganga frá hræinu og slíkt. Fórum síðan í bæinn að ganga frá kaupum á mözdu 323 sem við fundum á Netinu á miðvikudagkvöldið en þá hafði hann verið 5. mín á Netinu þegar við sáum hann. Eigandinn var svo hissa þegar við hringdum strax, fengum síðan ættingja til að kíkja á hann um kvöldið. Fórum í bæinn í gær og keyrðum heim á honum í gærkvöldi. Bara glöð með "nýja" bílinn.
Svo hafa viðbrögð í kringum okkur verið misjöfn, en einkennilegustu viðbrögðin sem við mæðgur höfum fengið voru þegar að dóttir mín hitti skólasystur sína og náfrænku í gær og fyrsta spurningin frá þeim var hvort það hefði ekki verið fyndið að sjá bílinn brenna og svo skellihlógu þær. Skrítin viðbrögð og maður spyr sig, í hvers konar veröld börn á fermingaraldri lifa í dag? Er ekkert talað við þau, eru áhrif bíómyndanna og hryllingsins þar, orðin til þess að börn eru tilfinningalaus? Umhyggjan fyrir nágunganum og líðan hans er ekki til. Hvernig vegnar svona börnum í framtíðinni? Sem grunnskólakennari á unglingastigi, velti ég þessu fyrir mér og spyr mig hvort ekki þurfi að vekja foreldra til umhugsunar um það hvernig þeir vilja sjá börnin sín í framtíðinni og hvað þeir, foreldranir, þurfa að leggja af mörkum. Eða er þessum foreldrum bara alveg sama um börnin sín, hvað þau hugsa, hvað þau gera, hvað þau segja, hvernig þau koma fram við fólk og hvernig þeim vegnar, bara að þau trufli ekki þeirra eigið líf og sjái um sig sjálf?
En að lokum, bílar eru veraldlegir, dauðir hlutir, þá er hægt að endurnýja svo það er/var ekki vandamálið. Aðalatriðið í þessu máli er að ekkert slys varð á mönnum við þetta óhapp. Ég vil þakka sérstaklega mönnunum sem komu okkur til hjálpar og ég veit ekki hverjir þeir eru, lögreglunni, sérstaklega stúlkunni á mótorhjólinu sem sinnti okkur, svo og slökkviliðinu í Hveragerði og Þórarni á dráttarbílnum fyrir hjápina. Allt þetta fólk vann vinnuna sína af öryggi og vandvirkni.
Takk öll sömul.
Góðar stundir.
Ummæli
Ég varð nú bara reið þegar ég las um hversu snöggir fréttamenn voru til að birta þetta. Já er ekkert tillit tekið lengur til eins né neins?
Bestu kveðjur til ykkar
Vilborg og co
Gamall dróttskáti úr Kópavoginum,
Kristjan Björnsson í Eyjum
Ég var að hugsa til þín eftir að við hittumst í dag og ákvað að kíkja á bloggið þitt. Þá las ég þessa frétt frá þér og að það hafi verið þú sem lentir í þessu. Þetta hlýtur að vera skelfileg lífsreynsla hjá ykkur mæðgum. En gott að allt fór vel eins og þú segir, þá er hægt að endurnýja bíla en ekki fólk.
Kveðja Inga sem var með þér í tölvunáminu.