Réttardagurinn og veðrið



Í dag er hátíðisdagur hér í Tungunum, fé í réttum eftir fjárlausar réttir í tvö ár. Margir fara ríðandi í réttirnar og kjötsúpa á hverjum bæ í sveitinni. Ball um kvöldið og fjör fram á nótt. Veðrið misjafnt, stundum gott og stundum vont og allt þar á milli. En í dag er það með versta móti a.m.k s.l. ár, fyrst rigning, svo slydda og þá snjókoma. Þessu fylgdi mikið rok.
Réttirnar sjálfar tóku fljótt af, um 600 fullorðið, byrjað snemma kl. 9.00, þannig að það var búið að draga í dilkana tæplega tíu, þegar að fólkið kom á staðinn. Fólk stoppaði stutt við, heyrði marga vera svekkta yfir því að allt væri búið og fór, ekkert um að vera. Allt búið. Líklega gleðjast þeir sveitungar mínir sem vilja enga í réttirnar nema þá sem eiga fé og þurfa að sinna því. Aðrir eru bara til trafala. En sem betur fer hlusta fáir á svona raddir og geðvonska þeirra og pirringur segir meira um þetta fólk en hina sem segja og vita að maður er manns gaman og njóta þess að vera saman og hafa gaman hvernig sem vindar blása. Halda í hefðir þó féið sé fátt.
Mín skoðun hefur alltaf verið sú að það á að gera meira úr þessum degi og blása til sóknar, taka vel á móti þeim sem vilja koma í sveitina og vera með. Gleðjast með frændum og vinum. Samstaða þeirra sem eru skipaðir í nefndir sveitarfélagsins og vilja ráða, hafa ekki náð saman um þetta en ég veit um fólk sem er sömu skoðunnar og ég í þessum efnum. Að lokum þakka ég mínum trygga fjallmanni fyrir að vilja vera okkar maður, takk Binni. Hann er á myndinni hér að ofan og lítur yfir féð í dag.


Ummæli

Vinsæll póstur

Ferð starfsfólks Bláskógaskóla Reykholti til Ítalíu, 30.04.2019 – 05.05. 2019

Prjónakennsla

Utís 2019 - Upping your classroom - Jesse Lubinsky