Áfram um sköpunargáfuna- ákvörðunina



Eftir að hafa legið í eigin framlagi og reynt að koma því skiljanlega á framfæri, lenti ég í vandræðum þegar ég þurfti að þýða propulsion theory og niðurstaðan varð framdrifskenning en mér finnst framrásarkenning ná betur yfir meininguna í kaflanum og legg til að það verði notað frekar eins og gert er í síðasta innleggi.
Þegar ég ákvað að nota framdirfs-orðið fannst mér meiningin vera að drífa eitthvað áfram en framrás er þýtt í orðabók Menningarsjóðs framsókn eða að ryðjast fram.
Það á betur við það sem talað er um í kaflanum.
En ég hef velt þessum með sköpunina fyrir mér og spurninguna um að vera skapandi. Ef maður ákveður að vera sammála flokkuninni um sköpun það er að segja að hún sé:
ákvörðunin um að vera skapandi
ákvörðunin hvernig maður virkjar sköpunargáfuna
hagnýtinguna af þessum ákvörðunum
þá er að mínu mati allt sem maðurinn tekur sér fyrir hendur og setur fram, skapar/býr til t.d. prjónar, málar, skrifar, yrkir, myndar og svo framvegis. Það er einhverskonar sköpun og miðað við lesturinn nú og síðast er spurningin í hvaða flokk við setjum hvert framlag, hverja sköpun.
Ég kíkti á töfluna á bls.101 þar sem reynt er að gera myndrænt, þær hreyfingar sem verða í hverjum flokki. Þessar myndir segja kannski meira en mörg orð og fengu mig til að skilja betur um hvað málið snýst í þessum kafla.
Þegar ég hef verið að lesa þessa fræði um sköpun hafa tvær megin hugsanir flogið í gegnum kollinn á mér sú fyrri er spurningin um það hvort listamenn (þeir sem skapa) séu að velta sér upp úr þessum skilgreiningum og flokka sig samkvæmt þeim. Ef þeir sem við flokkum sem listamenn, eru þeir sem standa fremstir í sköpuninni, eru þeir knúnir af eigin hvötum (áhuga) og þurfa því ekki að taka ákvörðun um að vera skapandi. En svo er það hin hliðin sem snýr að eigin starfi, það að virkja sköpunarkraftinn og vekja áhuga nemenda, fá þá til þess að leggja eitthvað fram. Þarna gæti verið gott fyrir kennarann að hafa eitthvað í höndunum til að vinna útfrá t.d. þegar hann leggur fram/leggur inn mismunandi verkefni fyrir mismunandi nemendur. Í dag finnst mér vera mikilvægt í þessu neyslu og umbúðasamfélagi að staldra við og virkja börn, fá þau sjálf til að hugsa, búa eitthvað til, setja eitthvað nýtt fram.
Þegar talað er um að dæmin í greininni séu „um sköpun á að því er virðist „háu plani“. Er fólk sem dundar sér við að sníða og sauma föt eftir eigin höfði, börn sem mála eða einhver sem dundar sér við að skrifa „skúffuljóð“ ekki skapandi?” Þessu vil ég svara játandi, ef þú ert að búa eitthvað til ertu skapandi. Mér finnst þetta vera spurningin um það hvort þú auglýsir þig, um það hvort þú vilt verða frægur eins og Kaffe Fassett, ( http://www.kaffefassett.com/ ) sem er flinkur prjónakarl og saumakall og kann að auglýsa sig svo ég taki nú bara eitt dæmi sem ég mundi eftir. Ég hef séð hannyrðir eftir konur sem eru engu síðri en hann. En það sem hann hefur verið að gera er að auglýsa sig en þær bara auglýstu sig ekki og fannst þær ekki vera neinir frumkvöðlar né listamenn. En svo er þetta ekki heldur spurningin um að auglýsa sig líka spurningin um að „spila” rétt í þeim hópi sem ræður viðskiptaumhverfi listanna. En nú er ég komin á ansi hættulegar brautir og farin að ræða aðrar víddir en gefnar eru í textanum. En engu að síður afar spennandi vettvangur að skoða .......................
Ég skoðaði mikið myndina á blaðsíðu 110, þar sem að flokkunin á sköpun er myndgerð. Þetta er afar spennandi vettvangur að skoða. Þetta liggur svolítið á mínu áhugasviði þar sem maður er alin upp í umræðunni um listir og það að vera skapandi, vera í fjölskyldu þar sem listamenn voru og eru í kringum mann.
Ef maður kemst inn í lista-elítuna er manni borgið, hvað svo sem maður setur fram og hvernig maður setur hlutina fram. Spurningin er að „fatta“ hvað virkar þar og hvernig maður kemst inn og spila með.!!!! En þetta er nú bara mín prívat skoðun en .................................

En ef ég sný mér að vinnunni og því sem ég er að reyna að ná fram þar og hvernig maður getur þróað sig áfram sem kennari og náð meiru út úr nemendum. Kannski gert lífið í skólanum skemmtilegt og fengið huga nemenda til að virka og skapa eitthvað. Mér finnst spennandi að skoða flokkunina og spá í hvort maður eigi að vinna út frá henni og nemendahópnum þegar maður setur verkefnið fram. En er nóg að ég geri það ein í kennarahópnum með mínum nemendum eða þyrfti þetta að vera pæling sem allur kennarahópurinn fer í gegnum og verður að einhvers konar stefnu hjá skólanum, stofnunni sjálfri. Þetta flaug í gegnum huga mér þegar að ég byrjaði að lesa sköpunarkaflann. Td. hafa skólar tekið upp ákveðnar skoðanir/stefnur og skilgreint þær fyrir sinn skóla. T.d. hefur skólinn á Flúðum tekið Gardner og unnið verkefni og framsetningu efnis út frá hans pælingum. Þarna er skólasamfélagið að vinna sem heild og væntanlega verður meiri samfella í því sem verið er að gera í skólanum en ef einn kennari hefur sína sannfæringu og samstarfsfélagar vinna út frá öðrum gildum. En þá kemur maður að spurningunni um það hvort að það sama eigi við alla og kannski er gott að nemendur fái að kynnast mismunandi áherslum og mismunandi framsetningu efnis. Þannig er það í mínum skóla að þar syngur hver með sínu nefi að mínu mati. Nemendur á yngri stigum hafa bekkjarkennara sem þeir hafa árið/árin til að læra á en þegar í unglingadeildir kemur og faggreinakennslan byrjar eru margir og mismunandi kennarar, með ólíkar skoðanir á kennslu og engin fagumræða fer þar fram, siglir hver sinn sjó og nemendur verða dálítið áttavilltir. Nær svoleiðis skóli árangri? Og hvers konar árangur vill samfélagið sjá?

Hér, í mínum skóla hefur áherslan verið á góðan árangur í samræmdum prófum og að sýna tölulega fram á það að nemendur kunni það sem þar er spurt um, þetta þýðir að engin/lítil sköpun á sér stað heldur staðreyndatroðsla, er það það sem nútímasamfélag þarf á að halda? Nei, ekki eftir því sem að nýjustu fræðingarnir segja, þá er það frumkvöðlastarfsemin og sköpunarkrafturinn sem gildir. Þeim muni vegna best sem að eru færastir á þessu sviði. Því er nauðsynlegt að leggja fram einhvers konar umræður og pælingu í sköpuninni, hvernig við kennarar getur virkjað þennan sköpunarkraft og hvernig við gerum það þannig að nemendum finnist það skipta máli það sem þeir gera/skapa/búa til.

Svo mörg voru þau orð að sinni,
Góðar stundir.

Ummæli

Vinsæll póstur

Ferð starfsfólks Bláskógaskóla Reykholti til Ítalíu, 30.04.2019 – 05.05. 2019

Prjónakennsla

Utís 2019 - Upping your classroom - Jesse Lubinsky