Að loknum kúrsinum mms 2006.
Nú þegar fer að líða að lokum þessa námskeiðs er við hæfi að líta yfir farinn veg. Í haust þegar ég byrjaði í kúsinum var ég ekki með neinar fastmótaðar né úthugsaðar skoðanir á því hvað myndi fara fram á námskeiðinu. En ég einsetti mér að skrifa dagbækurnar mína jafnóðum og ég gerði hugleiðingarnar á webct, það kom bara vel út en stundum þurfti ég þó að melta efnið í nokkra daga og gera svo dagbókina. Skemmtileg aðferð til að fá mann til að hugsa um efnið.
Pælingin í gegnum MediaLit Kit voru spennandi að því leyti að þarna fékk maður í hendurnar tæki sem virtist gagnlegt að nota í umræðum við nemendur um hvað er í gangi í því efni sem boðið er upp á í fjölmiðlum.
Ég velti fyrir mér ,með nemendahópinn minn 10.bekk, hvort þetta myndi virka og þá hvernig. Um miðjan nóvember gafst svo tækifæri sem ég nýtti og bjó til spurningar til nemenda út frá þættinum Tekinn og lét þau svara. Miðað við að þetta var í fyrsta skipti sem þau gerðu svona hjá mér gekk þetta bara vel. Þau fussuðu og sveiuðu fyrst og fannst ég vera að eyðileggja fyrir þeim þáttinn með því að setja fram gagnrýnandi spurningar en þegar upp var staðið síðar í vikunni þá gátu þau rætt þetta í fjarlægð og voru sjálf orðin gagnrýnin á þáttinn og það sem í honum var. Þau voru greinilega búin að melta þáttinn og spurningarnar í nokkra daga bæði meðvitað og ómeðvitað. Þannig hafði þetta áhrif, þau fóru að hugsa á nýjum nótum. Stuttu seinna horfðu þau á íslenska kvikmynd og eftir sýninguna voru þau látin kryfja myndina niður og skoða ákveðna þætti, þetta gekk miklu betur í seinna skiptið og þau höfðu greinilega verið meðvitaðri um hvað þætti þau ættu að skoða og hugsa útfrá en í fyrri umræðunni. Þau fóru á flug, skildi höfundurinn meina þetta eða hitt, af hverju gerði hann þetta atriði ekki hinsegin og svo frv.
Síðar í kúrsinum fór ég síðan alveg á flug, lenti sjálf að kynna það sem mér þykir gaman að spá og „spekulera” í, sköpuninni. Ég lagði mikla vinnu í að koma efninu sæmilega frá mér og hefði getað velt mér enn meira upp úr efninu. Mér fannst synd að sá sem átti að vera á eftir mér var ekki með í umræðunni, þar komu nefnilega fram margar skemmtilegir punktar og myndin ég hefði getað velt mér miklu meira upp úr myndinni á bls.101 í bókinni, þar sem að farið er í hvern þátt og áhrif sköpunar. Svona myndræn útfærsla segir meira en mörg orð. En mínar takmarkanir í skapandi hugsun eru nokkrar, ég hugsa of þröngt. Þegar ég hugsa um sköpun þá er ég annars vegar föst í myndlistargeiranum og hins vegar í hannyrðageiranum. En í haust hef ég reynt að hugsa víðar og sjá sköpun út frá fleiri sjónarhornum. Er ekki nánast allt sköpun, bara séð frá mismunandi sjónarhóli. Er það ekki sköpun þegar að barnið býr til hús úr sandi í sandkassanum sínum?, er það ekki sköpun þegar að unglingurinn sest niður og reynir að klambra saman ljóðlínum? Og svo framvegis. Er ekki takmörkunin í hugsun oftar hjá fullorðna fólkinu en hjá börnum. Gaman að spá í þetta.
Þá er það þriðji hápunkturinn á námskeiðinu, vinnan í photostory. Eftir staðbundnu lotuna í haust fór ég strax að hugsa um hvað ég gæti gert og hvað mig langaði að gera. Eftir nokkra umhugsun, fór ég nokkrum sinnum út í garðinn minn sem er nokkuð stór og tók fullt af myndum, við alls konar skil yrði, góðri birtu, morgunbirtunni, síðdegis birtunni, rigningarbirtu og svo framvegis. Þegar upp var staðið átti ég um 300 nothæfar myndir og langaði að setja saman í einhvers konar sýningu. En hvað átt ég að sýna? Í áætluninni um efnisgerðina sagði ég:
“Í þessu verkefni ætla ég að taka fyrir haustið og áhrif þess á gróðurinn.
Það sem mig langar til að ná fram er litasynfonía haustsins í myndum og finna lag/undirspil og hljóð t.d. vind, regn og þessháttar hljóð og jafnvel ljóð með. Datt líka í hug að finna frekar litil textabrot, frá ýmsum stöðum og setja inn á myndirnar, texta sem fellur að hverri mynd eða seríu fyrir sig, kannski búa til litlar örsögur.”
Eftir að hafa tekið allar þessa myndir og skoðað þær fram og aftur, melt þetta með mér, spáð í hvaða texta ég vildi hafa með, ætti ég að búa til námsefni um haustið og gróðurinn, átti ég að taka fyrir eina jurt og sýna haustferill hennar ? Átti ég að finna tilvitnanir og málshætti sem tengdust árstíðinni og setja með? Átti ég að búa til eigin texta/hugleiðingar um haustið? Nota texta annarra, ljóð og þá hvers konar ljóð. Eftir að hafa skoðað þessa möguleika, athugað hvað var til á bókasafni skólans, hvað var til í hillum heima, glugga í bækur og slíkt varð niðurstaðan að vinna útfrá ljóðinu Blómagarður eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Nú þá var að setja saman myndirnar og ljóðið, hvað passaði saman, hvers konar myndir átti ég, hvað sagði ljóðið? Eftir að hafa sett saman nokkrar uppfærslur af myndum og ljóðum bætt og lagað lagað og bætt var útkoman nokkuð ásættanleg, jú bara góð. Þá var að finna letrið og hreyfingarnar (effectana) í myndunum. Ég lenti í vandræðum með að finna lit á letrinu því myndirnar voru svo litskrúðugar og misjafnar, átti ég að hafa sama lit allsstaðar og sömu leturgerð? Erfiðast þótti mér að hafa ekki meiri nákvæmi í litabreytingum á letri, alltof staðlaðir litir. Eftir nokkuð margar prufur á lit, stærð og letri var ég nokkuð ánægð með útkomuna. En hvað svo, svo var það tónlistinn undir og áhrif hennar. Var búin að hugsa aðeins um það en ekki gera neitt í því. Eina jú, var búin að hugsa um að hafa einungis „instumental” lag, var búin að prófa lag með texta en það passaði alls ekki með ljóðinu, dró út áhrifum þess. En „instrumental” lag, hvaða tónlistarstefnu átti ég að velja, hvað átti ég sjálf af slíku efni, ekkert átti ég nothæft, fór til ættingja og lagðist yfir diskasafnið þeirra og fann loksins lag og viti menn hét það ekki autum leaves- haust lauf, skemmtileg tilviljun. Lagið passaði bara vel við myndaseríuna en nú voru góðráð dýr, lagið of stutt miðað við myndirnar. Átti ég núna að fara að fækka þeim og laga þær og textann að laginu eða laga lagið að myndunum og textanum. Eftir nokkrar tilraunir hafði ég lagað lagið að myndunum og klippt lagið til þannig að það passaði bara vel við myndasýninguna. En þetta var kannski svolítið flatt, kannski ætti ég að setja inn nokkur hljóðdæmi úr garðinum. Fyrr í haust þegar ég var að hugsa um þetta verkefni fann ég á netinu vefsíðu með ýmsum hljóðum, nú var gott að kíkja á hana. En hvers konar hljóð heyrast í garðinum á haustin, í mínum garði í haust var það aðallega hundgá enda með tvo stálpaða hunda og nú 7 hvolpa! En það passar ekki inní myndaseríuna mína, ekki kattarhljóðið heldur, enga mynd valdi ég af læknum í garðinum en fuglar? Hvaða fuglar eru á haustin, gæs, rjúpa, þrösturinn er snemma á haustin, maríuerla er alltaf hér á veturna, vindur, rigning, snjór. Eftir eina ferð enn í gegnum myndirnar og hugsað út frá umhverfishljóðum. Humm, allt rólegar stillimyndir sem passa ekki við hljóðin sem ég fann á síðunni, jú datt niður á þröst, tvö tóndæmi sem gætu gengið. Prufa það? Þá er ég prófa mig áfram með umhverfishljóðin, hvernig passa þau og hvernig er best að setja þau með? Hátt lágt, hvar? Og svo framvegis. Setti hljóðin niður á sjö rásir og púslaði saman tímanum, færði viðbótarhljóðin fram og til baka, hækkaði og lækkaði í laginu sjálfu til aðfinna hið „fullkomna” jafnvægi.
Loksins eftir nokkra daga að vinna með prufuhljóðin og samsetninguna er ég búin og sátt við vinnuna á Blómagarðinum.
Þetta er búið að vera afskaplega skemmtileg vinna og þegar ég var að fletta í gegnum prógrammið í þúsundasta skipti og lengdin bara rúmar 7 mínútur varð mér hugsað til kvikmyndagerðarmanna og þeirra sem vinna myndirnar, mikið ofboðslega hlýtur þetta að vera skemmtileg vinna og mikið þolinmæðisverk. Kannski á maður bara að skipta um starfsvettvang? Kannski er maður bara ekki á réttri hillu í lífinu? Skildi vera hægt að skipta um hillu !!!!!!
Ummæli