Umræða frá 18.okt 2006 um tákn, táknmið og táknkerfi.
Nú erum við komin í annan gír í umræðunni, meira kannski heimspekilegan byggðan á vísindalegum grunni.
Mér datt í hug, þegar ég las að tengsl tákns við merkingarmiðið (það sem það táknar/hlutinn) eru engin nema í gegnum annars vegar sameiginlegan þekkingarheim og hins vegar sameiginlegt táknkerfi, þegar ég fór til Asíu einu sinni hve háður maður er tungu- og myndmáli. Í Japan er allt annað kerfi, þar eru tákn sem mynda heilar setningar, tákn sem eru „stafir” í þeirra augum. Þar er nauðsynlegt að geta lesið í „myndir”/tákn. En þar sem merkingin er bundin í kóða (táknrófi) sem tengir saman hugtakakerfi okkar og málkerfi þannig að t.d. ákveðin hljóðaröð vísar til ákveðins hlutar eða fyrirbæris. Ef við ætlum að nota annað málkerfi þá segir kóðinn okkur að nota aðra hljóðaröð um sama hlutinn. En eins og í Japan er kóðinn ekki bókstafir heldur „myndir”/tákn sem þeir raða saman í samhengi. Menningarheimar hafa því ekki bara mismunandi myndir/tákn heldur er líka hvernig uppsetning/framsetningin er sett fram. Lestrarátt okkar er t.d. frá vinstri til hægri og lesið er ofan frá og niður á bls. , einnig þegar við byrjum á bók þá er fyrsta bls. no. 1 og það sem við köllum fremst í bókinni . En í Japan er byrjað frá okkar sjónarhóli séð aftan á bókinni, þar er bls. 1 og flett fram, einnig eru setningarnar lóðréttar á blaðsíðunni og lesið ofan frá og niður. (Þannig er barnabók sem ég á þaðan). Þetta er mikill munur og tilfinningin er önnur að „lesa”/ skoða slíka bók . Er þetta ekki menningarbundinn munur? En ekki merkingarbundinn munur? Ég spyr vegna þess að í textanum okkar kemur fram að meginatriðið er að merking er ekki innbyggð sjálfkrafa í hlutum/orðum, sem gerir það að verkum að maður þarf að þekkja og vita/skilja í hvaða menningarheim og umhverfi maður er staddur áður en túlkun á framsetningu hluta er gerður. Sem dæmi má taka ef að einhver (t.d. listamaður) setur eitthvað fram/býr til (t.d. kvikmynd) þarf maður væntanlega að vita bakgrunn hans og pælingar áður en maður túlkar það sem hann er að setja fram? Eða fer túlkunin og skilningur á viðfangsefninu eftir manns eigin reynsluheimi ? eða bland af þessu öllu?
Eftir að hafa melt texta „dagsins” í rúman sólarhring ákvað ég að skrifa út frá eigin reynslu á webct (18/10 2006). Reynslu sem hefur markað mig síðan ég var í Japan og á ég þá við allt sem maður skynjar og sér. Upplifunin var slík, að fá götukort í hendurnar og ætla að rata eftir Japönsku táknum og götuvísum var náttúrulega menningarsjokk. Það var ekki hægt.
Eftir slíka upplifun lítur maður hlutina allt öðruvísi, hún gerði mig að færari kennara með tilliti til t.d. lesblindu og skynjun fólks á umhverfi sínu. Ég lærði meira þar, kannski mest um sjálfa mig. T.d. er ekki til orðið nei í Japönsku, heldur segja þeir, getum við gert þetta öðruvísi?, eða hvernig væri að gera þetta svona? Og svo frv. Þeir reyna að finna lausn á vandanum og segja ekki nei. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig t.d. utanríkisviðskipti eiga sér stað milli ríkja þar sem að hlutirnir tákna svo oft ekki það sama milli landa. Og nú síðari ár hvernig kennarar fara að því að skilja og kenna nemendum sem koma úr öðrum menningarheimum? Hvernig fara þeir að?
Umræðan í fjölmiðlum er komin á þetta plan t.d. með fréttinni í sl. viku frá Vestfjörðum þar sem að pólsku mælandi börn voru orðin í meiri hluta og kennarinn þurfti að láta aðra pólska nemendur túlka fyrir sig. Hvaða stefnu á að taka? Getum við tekið stefnu eða verðum við að vinna úr þeim aðstæðum sem eru komnar upp og fara milliveg? En hvernig stendur þessi pæling þá varðandi setninguna í textanum að meginatriðið er að merking er ekki innbyggð sjálfkrafa í hlutum/orðum. Hún er búin til, sköpuð. Þá spyr ég mig hver skapar hana og hvernig þróast hún?
Gert 18/10 2006
Ummæli